Anna Stefánsdóttir verður klínískur ráðgjafi Nýs Landspítala ohf.

Það er samtökunum Spítalinn okkar sérstakt fagnaðarefni að Anna Stefánsdóttir, stjórnarformaður samtakanna mun gegna þýðingarmiklu hlutverki fyrir verkefnið sem einn af klínískum ráðgjöfum Nýs Landspítala ohf.

Hlutverk Önnu verður m.a. að starfa með samráðshópi fyrir legudeildir nýs Landspítala þar sem unnið verður áfram með notendum og fagfólki á vettvangi að því að þróa bestu mögulegu lausnir fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk.

Þekking og reynsla Önnu á sviði hjúkrunar um áratugabil á Landspítala mun án efa nýtast vel í þessu verkefni og það er mikill styrkur fyrir bæði Landspítala og samtökin Spítalinn okkar að taka höndum saman um næstu skref í þessu sameiginlega hagsmunamáli.

Áður höfum við sagt frá því á Facebooksíðunni okkar að varaformaður stjórnar samtakanna, Þorkell Sigurlaugsson, var nýverið tilnefndur af ráðherra til að leiða starfshóp um rekstur sjúkrahótelsins, fyrsta áfanga í nýbyggingu nýs Landspítala.

Samtökin Spítalinn okkar óska bæði Þorkatli og Önnu góðs gengis í ábyrgðarmiklum verkefnum.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is