Rannsóknarhús skapar gríðarmörg tækifæri

NLSH stóð fyrir málstofu á dögunum um forval á hönnun nýs rannsóknarhúss, sem er mikilvægur hluti af heildaruppbyggingu Landspítala við Hringbraut.

Á málstofunni kom fram að heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, hefur heimilað að fram fari forval á hönnun á nýju rannsóknarhúsi. Í máli ráðherra kom fram að samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hafi yfirfarið allar áætlanir og forvalsgögn NLSH í samræmi við lög um skipan opinberra framkvæmda.

Á málstofunni kom einnig fram í máli Gunnars Svavarssonar framkvæmdastjóra NLSH að staða Hringbrautarverkefnisins væri góð, að hönnun meðferðarkjarna gengur vel og senn verði sjúkrahótelið tekið í notkun. Forval á hönnun rannsóknarhúss er næst á dagskrá en það hús mun gjörbreyta aðstöðu starfsfólks. Starfsemi allra rannsóknarstofa Landspítala, auk Blóðbankans, flyst á einn stað en í dag er starfsemin dreifð á 13 staði víðs vegar í borginni.

Auk ráðherra og Gunnars fluttu Jón Atli Benediktsson rektor HÍ, Ásbjörn Jónsson verkefnastjóri NLSH, Helgi Már Halldórsson arkitekt hjá Spítal og Kristín Jónsdóttir gæðastjóri rannsóknarsviðs Landspítala erindi. Í fróðlegu myndbandi sem sjá má hér kemur fram í máli Kristínar að rannsóknarhúsið hafi gríðarmikla þýðingu. Þar skapist tækifæri til að samnýta aðstöðu, tækjabúnað og starfsfólk og framkvæma rannsóknir með hagkvæmari og skilvirkari hætti. Það opnar líka tækifæri til að innleiða nýjungar í tækni og sjálfvirkni og gera hluti sem starfsfólk Landspítala getur ekki gert við núverandi aðstæður.

 

 


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is