Samband spítala og háskóla

Staðsetning háskólasjúkrahúss - grein eftir Guðmund Þorgeirsson, prófessor í lyflækningum við Háskóla Íslands

Það er ekki tilviljun að háskólaspítalar hvar sem er í heiminum eru í fremstu röð sjúkrastofnana, heldur vegna þess að akademiska starfsemin, öflun og miðlun þekkingar, styður og eflir þjónustuhlutverkið gagnvart sjúklingunum. Akademiska starfsemin laðar hæft fólk til starfa og styrkir mikilvægustu innviði stofnana sem í eðli sínu eru fyrst og fremst þekkingarstofnanir. Í þessu frjóa samstarfi akademíu og þjónustu er gagnkvæmni því grunnstarfsemi spítalans, þjónustan við sjúklingana, leggur til rannsóknarspurningarnar og mikilvægasta rannsóknarefniviðinn og er að sjálfsögðu nauðsynlegur vettvangur fyrir kennslu heilbrigðisstétta og fyrir nýsköpun, þróun lyfja, nýrra tækja og hvers konar nýrra þjónustuúrræða fyrir sjúklinga.

Þegar ákvörðun um endurnýjun á húsakosti spítalanna á einum stað í Reykjavík var tekin í lok síðustu aldar komu margir staðir til greina sem flestir höfðu eitthvað til síns ágætis. Þar á meðal voru lóð Borgarspítalans í Fossvogi, Vífilstaðir auk Hringbrautarlóðar Landspítalans. Því var stofnað til ítarlegrar úttektar á öllum þessum kostum þar sem öll möguleg sjónarmið komu til athugunar, ekki síst atriði sem sneru að umferð og borgarskipulagi. Niðurstaða nefndarinnar er öllum kunn: Að öllu samanlögðu hentar Hringbrautarlóðin best. Meginástæðurnar eru þrjár:

1. Nýtanlegt byggingarmagn er mest á Hringbrautarlóðinni svo miklu munar. Er frekari uppbygging þar því langkostnaðarminnsta úrræðið.

2. Vegna nálægðar við Háskóla Íslands er uppbygging við Hringbraut markvisst innlegg í að þróa öflugan háskólaspítala með náin tengsl við allar heilbrigðisvísindagreinar skólans. Háskólinn lýsti jafnframt vilja til að byggja upp aðstöðu fyrir heilbrigðisvísindagreinarnar á lóðinni til viðbótar við Læknagarð sem fyrir er. Síðar hefur Háskólinn í Reykjavík, Íslensk erfðagreining og nú síðast uppbygging Vísindagarða á lóð Háskóla Íslands bæst við sem mikilvægir samstarfsaðilar í næsta nágrenni.

3. Hringbrautarlóðin liggur best við umferð og áformuðu borgarskipulagi. Var það m.a. álit sérfræðinga Reykjavíkurborgar sem störfuðu með nefndinni.

Eðlilega voru skiptar skoðanir um staðarvalið og margir töldu önnur sjónarmið vega þyngra en þau sem að ofan eru talin. Niðurstaða flókinna úrlausnarefna þar sem vega þarf marga mismunandi þætti er oftast í eðli sínu málamiðlun. Reyndar má telja víst að ef bíða ætti eftir einhug með þjóðinni um svo margþætt mál áður en framkvæmdir hefjist muni ekkert gerast og okkar bíða endalaus hringdans um ófyrirsjánlega framtíð. Við hrunið gafst hins vegar verðugt tilefni til að fara yfir allt málið á ný, ekki síst kostnaðarhliðina sem ekki varð auðveldari við hinar efnahagslegu hamfarir. Aftur komu erlendir sérfræðingar að málinu og sá möguleiki skoðaður að byggja ekki heldur búa í aðalatriðum við óbreyttan húsakost. Sú útfærsla reyndist hins vegar kostnaðarsömust allra þegar dæmið var reiknað vegna óhagkvæmni og vegna þess að kostnaðarsamar lagfæringar og endurnýjun á gömlu húsunum voru óhjákvæmilegar. Gagngert endurmat á staðsetningu leiddi til sömu niðurstöðu og áður: Hringbrautarlóðin hentar best af sömu ástæðum og fyrr eru raktar.

Stundum heyrast þau sjónarmið að þróun netheima hafi gert raunverulega nánd samstarfsaðila óþarfa. Tölvupóstar og fjarfundir nægi. Ekkert er fjær sanni. Ný tækni greiðir að sjálfsögðu fyrir samskiptum en kemur alls ekki í stað beinna samskipta sem eru því frjórri sem þau eru óhindraðri og óformlegri. Þátttakendur í árangursríku vísindasamstarfi hafa oft lýst því hvernig hugmyndir kvikna á milli þeirra . Oft geta vísindamenn alls ekki gert sér grein fyrir hver hafi fyrstur fengið tiltekna hugmynd eða fundið tiltekna lausn. Þær verða til í samtalinu og í því flæði hugmynda sem verður í nánu samstarfi. Þetta er eflaust ein af ástæðum þess að stofnanir sem byggja tilvist sína á þekkingarleit og nýsköpun leggja kapp á að staðsetja sig í næsta nágrenni við mikilvæga samstarfsaðila. Samnýting tækja og fleiri kostnaðarsjónarmið skipta líka máli. Læt tvö dæmi nægja: Ný stofnun í nanovísindum og nanotækni við Háskólann í Minnesota er hluti af Verkfræðideild skólans en staðsett handan götunnar beint á móti Háskólaspítalanum vegna þess að spítalinn er mikilvægur samstarfsaðili í nanóvísindum framtíðarinnar. Annað dæmi er Háskólasjúkrahúsið í Uppsölum og Háskólinn í Uppsölum og sá fjöldi nýsköpunarfyrirtækja sem hafa byggst upp í næsta nágrenni. Klasahugmyndafræðin er af sömu rót runnin og hefur haslað sér völl hér á landi með glæsilegum árangri.

Landspítalinn gegnir óumdeildu lykilhlutverki í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Því betri tengsl og því nánari samvinna sem næst við aðrar stofnanir heilbrigðisþjónustunnar, heilsugæsluna, sérfræðiþjónustu utan spítala og önnur sjúkrahús, þeim mun öflugra er allt heilbrigðiskerfið. Landspítalinn hefur einnig þróast farsællega sem háskólaspítali og mikilvægur hluti af öflugum rannsóknarháskóla sem á í gjöfulu samstarfi við aðrar rannsóknarstofnanir.  Eftir langan meðgöngutíma er runninn upp tími lokahönnunar og framkvæmda og nú hillir undir nýjan og stórbættan húsakost Landspítala við Hringbraut. Með nýjum byggingum mun Landspítalinn eflast á öllum þeim mikilvægu sviðum sem lúta að öflun og miðlun þekkingar í heilbrigðisvísindum og hagnýtingu hennar í þágu heilbrigðis í landinu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2015


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is