Stútfullt sérblað með Fréttablaðinu um uppbygginguna við Hringbraut

Í sérblaðinu um uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut eru m.a. viðtöl við núverandi og marga af fyrrverandi heilbrigðismálaráðherrum þjóðarinnar um mikilvægi uppbyggingarinnar við Hringbraut.

Einnig er rætt við tvo háskólarektora, Jón Atla rektor HÍ og Ara Kristin rektor HR. Anna okkar Stefánsdóttir, formaður samtakanna Spítalinn okkar er einnig til viðtals, sem og þeir arktektar og hönnuðir sem hafa yfirumsjón með verkefninu.

Þá er rætt við framkvæmdaaðila sjúkrahótelsins sem óðum tekur á sig mynd og rætt er við Ásdísi Hlökk, forstjóra Skipulagsstofnunar sem segir að staðsetning spítalans við Hringbraut sé í ágætu samræmi við aðra skipulagsáætlanir höfuðborgarinnar.

Páll Matthíasson forstjóri Landspítala og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri eru einnig teknir tali og fjalla um mikilvægi uppbyggingarinnar fyrir landsmenn alla, sama hvar þeir eru búsettir.

Verkáætlun fyrir uppbyggingaráformin er gaman að glöggva sig á og þá er einnig umfjöllun og viðtöl við fólkið sem ber hitann og þungann af skipulagi þessa stóra, flókna og mikilvæga verkefnis, fólkið hjá Nýjum Landspítala ohf.

Við vekjum allra helst athygli á viðtölum við fulltrúa stjórnmálaflokkanna. Af þeim flokkum sem gætu náð inn þingmönnum eru allir, utan eins, sammála um að halda beri áfram af fullum krafti uppbyggingu Landspítala við Hringbraut.

Það eru mikilvæg skilaboð fyrir nánustu framtíð. Næstu ár verða enda mikilvæg fyrir uppbyggingu íslenskrar heilbrigðisþjónustu - með uppbyggingu Landspítala við Hringbraut sem þungamiðju.

Krækja á sérblaðið er hér


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is