„Vér verðum að þroskast og magnast áður en við getum stært oss af nokkrum hlut...“

Þessi orð Ingibjargar H. Bjarnason voru rifjuð upp í erindi Önnu Stefánsdóttur, formanns samtakanna Spítalinn okkar, á aðalfundi samtakanna sem haldinn var þann 15. mars síðastliðinn. Anna sagði frá því að nú væri fimmta starfsár samtakanna að hefjast en enn væri ekki byrjað að byggja nýja sjúkrahúsið. Anna sagði frá því að árið 2000, þegar hún starfaði á Landspítala, var hafinn undirbúningur að byggingu nýs sjúkrahúss fyrir starfsemi Landspítala, flaggskip íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Þá fylltist starfsfólk eftirvæntingu og bjartsýni og sá fyrir sér að starfsemin yrði flutt í nýju bygginguna árið 2017.

Í ávarpi sínu á aðalfundi vitnaði Anna í ræðu fröken Ingibjargar H. Bjarnason sem hún flutti við stofnun Landspítalasjóðsins árið 1915. Ingibjörg var fyrsta skólastjóra Kvennaskólans í Reykjavík, fyrsta konan sem tók sæti á Alþingi og ötul baráttukona fyrir heilbrigðismálum og byggingu Landspítala. Í ræðu Ingibjargar kom eftirfarandi fram: 

„Minnist þess að vér Íslendingar erum enn litilmagnar, sem eigum eftir að ryða oss braut meðal þjóðanna og að vér verðum að þroskast og magnast áður en við getum stært oss af nokkrum hlut“.  

Nú hundrað árum síðar getum við stært okkur af mörgu, sagði Anna Stefánsdóttir - en alls ekki af núverandi sjúkrahúsbyggingum. Það er umhugsunarefni og segir okkur að baráttu samtakanna Spítalinn okkar er hvergi nærri lokið.

Merkilegu framlagi og baráttu kvenna til húsbygginga Landspítala voru gerð skil á árinu 2015 í þremur pistlum sem birtir voru á heimasíðu okkar. Þá má lesa hér, hér og hér.

Sabine Leskopf varaborgarfulltrúi var fundarstjóri aðalfundar og málþings og Sigríður Rafnar Pétursdóttir ritari stjórnar, sá um að rita fundargerð.

Anna Stefánsdóttir fór yfir helstu áherslur stjórnar á síðasta starfsári. Þar var kynningarstarf í forgrunni, líkt og undanfarin ár. Hún sagði að stjórnarfólki þætti nauðsynlegt að félagar okkar þekki verkefnið og hvernig því vindur fram: „Við erum jú öll talsmenn nýbygginga Landspítala“.

Einnig sagði Anna frá samstarfi samtakanna við sjónvarpsþáttinn „Avinnulífið“ á Hringbraut og hvatti félaga til að sjá þáttinn hafi þeir ekki þegar gert það enda sé hann upplýsandi, áhugaverður og málefnalegur.  

Slóðin er hér.

 Í ræðu sinni gerði Anna Stefánsdóttir formaður samtakanna að umfjöllun sinni þá umræðu um staðsetningu sem hefur verið áberandi síðustu mánuði. Hún sagði meðal annars: „Umræðan um staðsetningu nýbygginga Landspítala er mjög hávær nú um stundir. Mikið heyrist í þeim sem halda því fram að fyrirhugaðar byggingar Landspítala við Hringbraut séu á alröngum stað og margir virðast  hafa aðhyllst þá skoðun. Við í Spítalanum okkar teljum þessa umræðu á villigötum og illa ígrundaða, svo vægt sé til orða tekið og höfum kosið að láta í okkur heyra vegna þess. Við vitum að mikil vinna var lögð í allt staðarvalsferlið á árunum fyrir hrun, sem síðan hefur verið endurmetið með reglulegu millibili allt til ársins 2015. Allt ber að sama brunni, Hringbraut er besta og hagkvæmasta staðsetningin“. 

Anna ítrekaði í lok umfjöllunar um skýrslu stjórnar að hröð uppbygging Landspítala væri hagsmunamál allra Íslendinga „enda höfum við dregist hratt aftur úr öðrum þjóðum á undanförnum árum hvað varðar aðstöðu og húsnæði fyrir heilbrigðisþjónustu“.

Í lokin þakkaði Anna félagsmönnum samtakanna fyrir stuðninginn við þetta mikilvæga verkefni. „Áframhaldandi stuðningur ykkar er ómetanlegur því okkar verkefni er hvergi nærri lokið“.

Kolbeinn Kolbeinsson fór yfir reikninga Spítalans okkar. Félagsgjöld standa að stærstum hluta undir kynningarstarfi samtakanna og er félögum þakkað framlög þeirra til starfsins.

Kosning stjórnar fór fram á aðalfundinum eins og venja er.

Anna Stefánsdóttir var endurkjörin formaður.
Sigríður Rafnar Pétursdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
Guðrún Björg Birgisdóttir, lögfræðingur kemur ný í stjórnina og endurkjörin voru þau Gunnlaug Ottesen, stærðfræðingur, Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt, Kolbeinn Kolbeinsson, verkfræðingur, Oddný Sturludóttir, menntunarfræðingur og Þorkell Sigurlaugsson, viðskiptafræðingur.

 Málþing samtakanna hófst að loknum aðalfundi og verður því gerð skil í öðrum pistli.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is