Sameining sjúkrahúsanna

Undir lok síðustu aldar hófst mikil bylgja sameiningar sjúkrahúsa í hinum vestræna heimi. Var með þessu leitað hagkvæmari rekstrareininga en megin ávinningurinn var þó að nýta betur sérhæfingu mannaflans, því framfarir og þróun byggir einkum á aukinni sérhæfingu sem aftur kallar á „stærri áhafnir“ ef svo má að orði komast. Með sífellt dýrari tækjabúnaði var einnig krafist betri nýtingar hans. Í þessu tilliti er Ísland ekkert eyland.

Vorið 1991 kallaði þáverandi heilbrigðisráðherra, Sighvatur Björgvinsson forsvarsmenn Landakotsspítala, Landspítala og Borgarspítala til skrafs og ráðagerða um þá fyrirætlan hans að sameina Borgarspítala og Landakotsspítala. Voru fjárhagsleg rök einkum lögð til grundvallar þessari ætlan ráðherrans. Í framhaldinu var skipuð nefnd til undirbúnings málinu undir forystu Páls Sigurðssonar, þáverandi ráðuneytisstjóra. Vannst þeirri nefnd vel, en vegna fyrirstöðu starfsmanna á Landakoti varð ekki af sameiningunni fyrr en árið 1996 þegar Sjúkrahús Reykjavíkur varð til. Einu ári síðar talaði Ingibjörg Pálmadóttir, sem þá var heilbrigðisráðherra, á aðalfundi Læknafélags Íslands. Þar hét hún á læknasamfélagið að styðja sig í því að sameina Landspítala og Sjúkrahús Reykjavíkur og gaf ákveðin fyrirheit um að þá yrði byggt nútímalegt háskólasjúkrahús yfir sameinaðan spítala. Varð þetta forsenda þess að sæmileg sátt náðist um málið meðal lækna þegar sameiningin var ákveðin árið 1999. Stjórnunarleg sameining varð síðan formleg árið 2000.

Í upphafi var megin áhersla lögð á að sameina sérgreinar, þannig að aðeins væri ein þvagfæraskurðdeild, ein hjartadeild og þar fram eftir götunum. Kostaði þetta heilmikið húsnæðisrask og endurskipulagningu mannafla. Það var mörgum sársaukafullt en óumdeilt var þó að mikill faglegur ávinningur næðist við það að sameina hverja sérgrein. Augljóst þótti þó og mikið óhagræði af því að bráðastarfsemin þyrfti áfram að vera bæði í Fossvogi og við Hringbraut þar sem hvorugur gömlu spítalanna gat hýst alla þá starfsemi og getur ekki enn.

Á þeim 23 árum sem liðin eru frá því að sameiningarferlið hófst hefur orðið mikil breyting með vaxandi þekkingu og tækni sem eykur verulega möguleika til að lækna og líkna sjúkum. Lítil breyting hefur orðið á húsakosti á sama tíma, ef frá er talin bygging barnaspítalans.

Önnur samfélagsleg breyting hefur ekki síður áhrif á eftirspurn spítalaþjónustu, en það er gífurleg fjölgun í aldurshópi 60 ára og eldri. Stóru hóparnir, sem fæddust á áratugunum tveimur eftir lok síðari heimsófriðar, eru nú sem óðast að fylla þennan hóp. Þetta er sá aldurshópur sem mest þarf á spítalaþjónustu að halda en hann nýtti árið 2010 tvöfalt fleiri sjúkrapláss á Landspítala. Árið 2025 mun hópurinn nýta þrefalt fleiri sjúkrarými og fjórfalt fleiri árið 2050! Er nú svo komið að fyrirsjáanlegt er að ekki verður hægt að bjóða upp á sambærilega þjónustu við þennan stóra hóp sem til þessa hefur þótt sjálfsögð.

Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is