Spurt og svarað

Hér er leitast við að svara í stuttu máli spurningum sem oft heyrast í umræðunni um nýbyggingar Landspítala

 Af hverju þarf að byggja nýbyggingar á Landspítala?

Starfsemi Landspítala er nú á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu í um 100 húsum. Augljóst er hvert faglegt og fjárhagslegt óhagræði er af svo tvístruðum rekstri. Meirihluti (54%) bygginga spítalans var reistur fyrir 1970 og aðeins 8% á síðustu 25 árum. Hlutverk og starfsemi sjúkrahúsa hefur síðan tekið gífurlegum breytingum og svara húsin því hvorki nútíma þörfum né kröfum.

Ekki næst samhæfð starfsheild fyrir spítalann og hamlar núverandi húsnæði þróun skilvirkra verkferla. Flutningar sjúklinga innan spítalans eru tímafrekir og stundum beinlínis hættulegir. Á vegum spítalans eru um 9.000 sjúkraflutningar á ári milli Fossvogs og Hringbrautar og ferðir þar á milli með ýmiskonar sýni eru 25.000 á ári.

Fjarri fer að hægt sé að koma fyrir í gömlu húsunum þeim lögnum sem til þarf svo kröfum um loftræstingu verði fylgt, svo dæmi sé tekið, til þess er lofthæðin of lítil. Lög um friðhelgi einkalífs sjúklinga er oft ekki hægt að virða því afdrep finnst varla til að afla nauðsynlegra upplýsinga án þess að óviðkomandi heyri. Smitleiðir eru greiðar innan spítalans þar sem 90% sjúklinganna deila salerni með öðrum og 64%  liggja á fjölbýlisstofum. Spítalasýkingar eru afar dýrar í meðhöndlun og sumar banvænar. Með einbýlum og eigin salerni má fækka þeim mjög. Fjölmargt annað mætti telja.

Af hverju var nýjum spítala valinn staður við Hringbraut?

 Minnstur kostnaður þar sem hægt er með lagfæringum að nota mikið af eldri byggingum spítalans við Hringbraut enn um all langan tíma s. s. Barnaspítalann, kvennadeildarbyggingu, geðdeildir, K-byggingu, eldhúsbyggingu o. fl. Ef spítalinn væri reistur á nýjum stað frá grunni myndi kostnaður nær þrefaldast.

Enginn staður liggur betur við almenningssamgöngum og verður enn betra þegar miðstöð samgangna flyst á lóð Umferðamiðstöðvarinnar eins og Reykjavíkurborg áformar. Fjórðungur starfsmanna búa í innan við 14 mínútna göngufæris og 50% þeirra í innan við 14 mínútna hjólafæris við spítalann. Samgöngumannvirki annars staðar í borginni eða í nágrannasveitarfélögum eru ekki betur undir það búnar að taka við umferð sem tengist spítalanum. Í aðalskipulagi Reykjavíkur er bygging Hlíðarfótar til suðurs. Verða þá þrjár stofnbrautir að lóð spítalans.

Nálægð við Háskóla Íslands, HR og annað þekkingarsamfélag í Vatnsmýrinni skiptir miklu máli vegna rannsókna og kennslu, en vel á annað hundrað starfsmanna spítalans eru jafnframt starfsmenn HÍ.

Hvað kostar að byggja nýjan spítala?

Áætlaður kostnaður við byggingarnar sjálfar (77 þús. m2) ásamt bílastæðahúsi, tæknihúsi,  tengingum við eldri hús, gatnagerð, áföllnum kostnaði og frágangi lóðar er samanlagt 50.2 milljarðar króna á verðlagi í byrjun árs 2014. Tækjabúnaður er þar ekki með talinn. Nývirði tækja er áætlaður um 15 milljarðar kr.

 Höfum við efni á að „eyða“ fé í nýbyggingar þegar ekki er hægt að reka spítalann sómasamlega?

 Norska fyrirtækið Hospitalitet hefur gert hagkvæmniúttekt framkvæmdarinnar og borið saman við það að hafast ekki að í nýframkvæmdum en reka spítalann við óbreyttar aðstæður. Niðurstaðan er að árlega sparast 2.6 - 3 milljarðar í ársrekstri spítalans (rúml. 7 milljóna kr. á dag). Þetta stendur vel undir kostnaði af þeim lánum sem taka þarf til byggingarinnar á 30 - 40 árum liðnum.

Samkvæmt þeirra niðurstöðu er dýrara að reka spítalann í núverandi húsakosti. Fé sem til reiðu er til arðbærrar fjárfestingar er ekki til reiðu fyrir rekstur. Þessu má líkja við það þegar gamli heimilisbíllinn er orðinn mjög dýr í viðhaldi, kemst ekki það sem ætlast er til af honum. Þá er hagkvæmarara að kaupa nýjan bíl, sem uppfyllir kröfurnar, er viðhaldsminni og sparneytnari,  jafnvel þó að taka þurfi lán fyrir fjárfestingunni. Nauðsynleg fjárfesting er ekki eyðsla og enn síður sé hún arðvænleg.

Á að nota gömlu byggingarnar eitthvað?

Já, byggingar LSH við Hringbraut verða allar notaðar um sinn nema um 4.000 m² sem eru það  lélegar að ekki er gerlegt að nýta þær áfram. Annað eldra húsnæði verður endurbætt að hluta en ekki verður byrjað á því fyrr en nýju byggingarnar hafa verið teknar í notkun. Er þetta breyting frá upphaflegum áformum frá 2005 þegar gert var ráð fyrir mun stærri nýbyggingu. Deiliskipulag gerir ráð fyrir síðari byggingaráföngum en engin ákvörðun liggur fyrir hvort eða hvenær af þeim verður.

 Af hverju er byggingu nýs Landspítala áfangaskipt?

Það er af fjárhagslegum ástæðum. Brýnasta verkefnið nú er að skapa sameiginlegan vettvang fyrir alla bráðaþjónustu spítalans sem fullnægir kröfum tímans. Í síðari áföngum er ætlað að öll starfsemi spítalans búi við slíkar aðstæður með frekari uppbyggingu og endurbyggingu eldra húsnæðis.

 Af hverju er sjúkrahúsið af sumum kallað hátæknispítali?

Hátæknisjúkrahús er um margt villandi fyrir verkefnið enda tæknin ekki aðalmarkmiðið. Við uppbyggingu nýs Landspítala er lögð áhersla á þarfir sjúklinga, aðstöðu starfsmanna og nemenda í heilbrigðisvísindadeildum. Öll hönnun er miðuð við þessa þætti. Vissulega verður mikil tækni á nýju sjúkrahúsi, svipað og tíðkast í sjúkrahúsum á Norðurlöndunum sem hafa svipað hlutverk og Landspítali. Landspítali er bæði háskólasjúkrahús og þjóðarsjúkrahús - spítali allra landsmanna -  endastöð þeirrar heilbrigðisþjónustu sem í landinu býðst. Best fer á því að tala um verkefnið einfaldlega sem nýbyggingar Landspítala.

Hvað er áætlað að margir vinni við nýbygginguna?

Þörf fyrir vinnuafl verður mest á þriðja og fjórða byggingarári, en þá er gert ráð fyrir tæplega 800 ársverkum við undirbúning og framkvæmd nýbygginga. Í heildina er áætlað að verkefnið skili tæpum 3.000 ársverkum. Um 2/3 byggingarkostnaðar er innlendur.

 Hvað verða mörg bílastæði á lóðinni?

Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi er gert ráð fyrir að í fyrsta áfanga verði 1.600 bílastæði á lóðinni en að henni fullbyggðri verði þau um 2.000 sem er sami fjöldi og er nú samanlagt í Fossvogi og við Hringbraut.

Hvað verður byggt?

Nýbyggingar verða samtals fjórar, þar af ein viðbygging við Læknagarð sem Háskóli Íslands mun byggja. Nýbyggingar spítalans verða því þrjár, sjúkrahótel, rannsóknarstofuhús og meðferðarkjarni. Í meðferðarkjarna verða m.a. bráðamóttaka, myndgreining, skurðstofur, æðaþræðingarstofur, gjörgæsla, endurhæfing, sjúkrahúsapótek, dauðhreinsun og 180 legurými. Í rannsóknarstofuhúsi sameinast allar þjónusturannsóknir spítalans á einn stað og á sjúkrahóteli verða 77 herbergi með jafnmörgum legurýmum.

Hvenær er áætlað að nýr spítali verði tilbúinn?

Byggingartími er áætlaður 6 – 7 ár frá því að ákvörðun er tekin um bygginguna.

 Hver er áætlaður sparnaður við að sameina starfsemina í Fossvogi og við Hringbraut?

Samkvæmt hagkvæmniútreikningi sem lokið var í október 2011 er áætlaður sparnaður talinn verða minnst 2,6 milljarðar kr. á ári strax að loknum fyrsta áfanga. Heildarrekstrarkostnaður spítalans á árinu 2013 var 45.3 milljarðar. Snúa má spurningunni við og kemur þá í ljós að íslenska ríkið er að verða af sparnaði að upphæð um 7 milljónum króna á sólahring meðan ekki er búið að sameina starfsemina í Fossvogi og á Hringbraut.

 Verður sjúkrahótel á lóðinni?

Já, gert er ráð fyrir að á lóðinni verði reist 77 rúma sjúklingahótel. Frá hótelinu verður innangengt í alla meginstarfsemi spítalans. Slík staðsetning og fyrirkomulag eykur notagildi hótelsins og öryggi.

Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is