Konur og Landspítalinn

Árið 2015 var öld liðin frá því að konur fengu kosningarétt og voru kjörgengar á Alþingi Íslendinga. Af því tilefni tók Spítalinn okkar saman þrjá pistla um merkilegan hlut kvenna í framkvæmdasögu spítalabygginga á Íslandi. 

Konur og Landspítalinn / 1. pistill

„Fyrsta málið sem vér viljum vinna að er stofnun Landspítala.“
(Ingibjörg H. Bjarnason)

Á þessu merkisári 2015 er því fagnað að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. Tímamótunum verður fagnað á margvíslegan hátt og samtökin Spítalinn okkar vilja gjarnan nýta tækifærið og vekja athygli á hlut kvenna í byggingarsögu spítala á Íslandi. Sá hlutur er geysistór og hefur skipt höfuðmáli í uppbyggingu heilbrigðiskerfis þjóðarinnar.

Það hefur aldrei farið hljótt um byggingu Landspítala. Hún var þrætuepli þjóðarinnar, bæði innan Alþingis sem og utan, um aldamótin 1900. Barátta kvenna fyrir spítalabyggingu teygir sig aftur til ársins 1901 en þá gerðu St. Jósefssystur Alþingi tilboð um byggingu 30-40 rúma spítala í Reykjavík. Sú barátta var ekki átakalaus en fyrir tilstuðlan systranna reis Landakostspítali og var tekin í notkun 1902.

Þá taldi Alþingi að nóg væri gert í bili og að ekki þyrfti að huga meira að byggingu Landspítala. Það var svo þann 19. júní árið 1915 sem Alþingi samþykkti lög um stjórnarfarsleg réttindi kvenna sem veittu þeim kjörgengi og kosningarétt til jafns við karla.  Af því tilefni sáu konur ástæðu til að fagna og minnast með eftirminnilegum hætti þessum mikilvæga áfanga í sögu kvenna.  

Tvö kvenfélög í Reykjavík tóku sig saman og stefndu saman stjórnum og formönnum kvenfélaga í landinu til að ræða hvað gera ætti til að minnast þessa mikilvæga viðburðar á minnisverðan hátt. Konur frá 12 kvenfélögum mættu til fundar í húsnæði Kvennaskólans og hlýddu á framsögu Ingibjargar H. Bjarnason skólastjóra og síðar þingkonu. Hún sagði meðal annars:

„Fyrsta málið sem vér viljum vinna að er stofnun Landspítala. Vér munum starfa að þessu á tvennan hátt: Í fyrsta lagi með sjóðsstofnun og í öðru lagi með því að beita áhrifum vorum um allt land til að berjast fyrir þessu máli og fá Alþingi og landsstjórnina til að taka málið til undirbúnings og framkvæmda.“

Ingibjörg H Bjarnason var í hópi tólf kvenna sem sömdu frumvarp er flutt var á Alþingi árið 1915 um þörfina fyrir byggingu Landspítala. Eftir að hún var kosin á þing árið 1922 varð hún ein aðaltalskona Landspítalamálsins eins og það var kallað. 

Í næsta pistli um hlut kvenna í byggingarsögu Landspítala verður fjallað um Landspítalasjóðinn sem konur stóðu að og margvísleg önnur meðöl sem konur notuðu í baráttu sinni fyrir byggingu Landspítala.

Konur og Landspítalinn / 2. pistill

„Þörfin kallar hærra með hverju ári.“ 
(Ingibjörg H. Bjarnason)

Í öðrum pistli um hlut kvenna í byggingarsögu Landspítala verður fjallað um Landspítalasjóð. Til hans var stofnað árið 1915 og efndu konur til fjölbreyttra viðburða um allt land til að safna fé í sjóðinn. Meðal annars stóðu þær fyrir mikilli útihátíð á Austurvelli í tilefni af útgáfu fyrsta tölublaðs 19. júní árið 1917. Konur gengu fylktu liði frá skólagarðinum við tjörnina með konu í broddi fylkingar sem bar íslenska fánann. Það mun hafa verið í fyrsta sinn sem íslenski fáninn var borinn í skrúðgöngu. Í árslok 1917 höfðu safnast 45.000 krónur í sjóðinn – en næstu árin gerðist harla fátt, utan vinnu við teikningar.

Konum fór að leiðast hikið á landsstjórninni og aðgerðarleysi Alþingis og árið 1923 tekur Ingibjörg H. Bjarnason málið upp í ræðustól Alþingis. Þar segir hún meðal annars: „og afskiptum íslenskra kvenna má vissulega að nokkru leyti þakka það að landspítalamálið á nú nærri óskipt fylgi allra, jafnt karla sem kvenna um land allt.

Í ræðu sinni reifaði hún einnig kyrrláta en ötula baráttu kvenna árin áður og mikilvægi sjóðsins sem fólk af öllu landinu hafði lagt fé til, fyrir þeirra tilstuðlan. Svo segir orðrétt í ræðunni: „Ég skal í þessu sambandi taka það fram að konur ætluðu sér aldrei þá dul að reisa landspítala. Þeim var frá upphafi ljóst að það hlyti ríkissjóður að gjöra og það viðurkennir bæði þing og stjórn. En við svo búið má ekki lengur standa. Þörfin kallar hærra með hverju ári, þörfin fyrir bættum kjörum sjúklinga og þörfin fyrir betri námskjörum læknaefna.

Eftir þetta hófu konur viðræður við landsstjórnina um að ríkið legði fé til framkvæmda á móti fé úr Landspítalasjóðnum. Konur töldu sig hafa samið um fjárframlög til byggingarinnar árið 1924 en ekki var stafkrók um framkvæmdir við landspítala að finna á fjárlögum fyrir árið 1925. Urðu það konum mikil vonbrigði og skrifuðu þær í blaðið Iðunni í febrúarmánuði það ár: „Það reyndist rétt sem oss grunaði að eigi mundi neitt gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að koma byggingu landspítala á rekspöl. Fjárlagafrumvarpið nefnir hann ekki á nafn. En þó mun málið ekki dautt heldur mun það sofa, því lífsmark er með því þar sem gerð hefur verið kostnaðaráætlun og uppdrættir að sjúkrahúsi.

Í næsta pistli um hlut kvenna í byggingarsögu Landspítala verður fjallað um borgarafund sem talskonur spítalans stóðu að og kom málinu á skrið. Svo mjög var þolinmæði þeirra á þrotum að Bríet Bjarnhéðinsdóttir lagði til að Alþingi myndi einungis starfa annað hvert ár, hitt árið rynni kostnaður við þinghald í byggingasjóð nýs Landspítala.

Konur og Landspítalinn / 3. pistill

Kemur nú til kasta ríkisstjórnarinnar að sýna hvað hún vill fyrir málið gera.
(úr pistli í 19. júní, árið 1926)

Í þriðja pistli um hlut kvenna í byggingarsögu Landspítala dregur til tíðinda. Í aprílmánuði árið 1925 var þolinmæði kvenna á þrotum enda bólaði ekki á efndum yfirvalda um byggingu Landspítala. Stjórn Landspítalsjóðs boðaði því til almenns fundar í Nýja bíói þann 15. apríl þar sem ræða skyldi framkvæmdir við landspítala. Stjórn sjóðsins hafði boðið þingmönnum og ráðherrum til fundarins og það var eins og við manninn mælt: Fullt var út úr dyrum á fundinum af konum jafnt sem körlum. Framsögu hafði Ingibjörg H. Bjarnason þingkona og ein ötulasta talskona framkvæmda við spítalabyggingu á Alþingi. Margir tóku til máls á fundinum, meðal annars Bríet Bjarnhéðinsdóttir sem stakk upp á því að Alþingi yrði aðeins haldið annað hvert ár en kostnaður við þinghald hitt árið rynni til byggingasjóðs spítalans.

Eftir fundinn í Nýja Bíói komst skriður á málið. Landspítalsjóður, sem þá hafði safnað 250.000 krónum, gerði ríkisstjórninni tilboð um fjárframlag svo hefja mætti framkvæmdir árið 1925. Læknafélag Reykjavíkur hvatti Alþingi til að taka þessu tilboði kvenna og hefja framkvæmdir. Auk þess sendi læknadeild Háskóla Íslands Alþingi álitsgerð um málið.

Á árunum 1925-1930 tóku fyrstu byggingar Landspítala að rísa. Allan þann tíma fylgdust konur vel með framkvæmdum og létu í sér heyra ef þeim fannst ríkisstjórnin ekki standa við sitt. Á þessum árum skrifuðu konur ævinlega um framkvæmdirnar og gang mála í blaðið 19. júní. Í blaðinu árið 1926 áréttuðu konur ábyrgð ríkisstjórnarinnar: „Landspítalasjóður Íslands hefur lagt fram það fé er hann hefur skuldbundið sig til að leggja fram þetta ár. Kemur nú til kasta ríkisstjórnarinnar að sýna hvað hún vill fyrir málið gera. Það væri illa farið ef nú yrði numið staðar við verkið og það látið bíða næsta árs. Það væri þvert ofan í þann samning sem gerður var við stjórn Landspítalssjóðs.

Konur lögðu mikið á sig við fjársöfnun til spítalabyggingarinnar en ekki síður er aðdáunarvert að lesa um einurð þeirra við að afla málinu stuðnings meðal landsmanna. Þær létu aldrei deigan síga þau 15 ár sem liðu frá Kvennaskólafundinum árið 1915 þar til byggingin var tekin í notkun í desember árið 1930. Fjársöfnun kvennanna stóð undir þriðjungi stofnkostnaðar spítalans á þeim tíma, 400.000 krónur komu úr Landspítalasjóði en stofnkostnaður nam rúmlega einni milljón króna.

Hlutur kvenna í sjúkrahúsuppbyggingu Íslendinga er langtum stærri en hér hefur verið fjallað um í þremur stuttum pistlum. Það er von samtakanna Spítalans okkar að á aldarafmælisári kosningaréttar kvenna verði þessi merkilegi hlutur kvenna í uppbyggingu og framþróun heilbrigðismála Íslendinga byr í seglin fyrir uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala.

Orð Ingibjargar H. Bjarnason sem féllu árið 1923 eiga jafn vel við í dag: Þörfin kallar hærra á hverju ári.

Samantekt önnuðust Anna Stefánsdóttir og Oddný Sturludóttir, í stjórn samtakanna Spítalinn okkar. 

Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is