Hvað verður að finna í rannsóknarhúsi Landspítala?

Úr 16 húsum í eitt rannsóknarhús

Rannsóknahús Landspítala er ein fjögurra bygginga sem fellur undir byggingarverkefni Nýs Landspítala (NLSH). Með byggingu þess munu fjölmargar rannsóknarstofur spítalans sameinast á einum stað. Í dag eru þær dreifðar í sextán hús víðs vegar um borgina, m.a. á Hringbrautarlóð spitalans, í Fossvogi, við Ármúla og flestar búa rannsóknarstofurnar við afar þröngan kost.

Ókostir dreifðrar starfsemi rannsókna

Þegar starfsemi dreifist jafn víða og rannsóknarstarfsemi Landspítala hefur gert hingað til, hljótast af því margvíslegar neikvæðar aukaverkanir, s.s. sóun mannauðs, tæknibúnaðar og þekkingar. Rekstrarkostnaður verður hærri því meira þarf að fjárfesta í tækjum þegar sérhæfð þekking dreifist á of marga staði. Sérhæfð þekking nýtist vitanlega best í samstarfi stærri hóps sem starfar náið saman dags daglega.

Öryggi er mikilvægt í þessu samhengi, það blasir við að þegar rannsóknarstarfseminni er fyrirkomið á einum stað verður öryggi í t.d. móttöku og meðferð sýna mun meira. Miðlæg sýnamóttaka þýðir ekki eingöngu mikið rekstrarhagræði heldur einnig – og umfram allt faglegan ávinning, tímasparnað – og meira öryggi.

Fjölbreytt hlutverk rannsóknarhúss

Meginhlutverk rannsóknastofa spítalans er að sinna þjónusturannsóknum við sjúklinga, eins hratt og örugglega og verða má. Einnig sinna rannsóknarstofur spítalans sérhæfðum rannsóknum fyrir Landspítala, aðrar heilbrigðisstofnanir sem og læknastofur. Því til viðbótar sinna ýmsar rannsóknastofur spítalans þjónustu fyrir heilbrigðisyfirvöld, t.a.m. á sviði lýðheilsu, smitvarna og blóðgjafafræði og mörgu fleiru. Við erum fámenn þjóð og því er slík samtvinnun óhjákvæmileg og beinlínis æskileg. Landspítali er þjóðarsjúkrahús og eina háskólasjúkrahúsið okkar. Það gegnir því veigamiklu hlutverki við að afla nýrrar þekkingar í heilbrigðisvísindum.

Rannsóknarhús er menntastofnun

Rannsóknarhús gegnir einnig mikilvægu hlutverki sem menntastofnun. Menntun fjölmargra heilbrigðisstétta er snar þáttur í starfsemi rannsóknarhúss, ekki síður en annarra sviða háskólaspítala. Styrkur sjúkrahúss sem háskólasjúkrahúss liggur ekki síst í  rannsóknastofum, bæði þeim hluta sem þjónar sjúklingum beint og þeim hluta sem snýr að menntun, öflun nýrrar þekkingar og reynslu.

Átta sérgreinar, áhætturannsóknarstofa – og Blóðbankinn

Á rannsóknasviði eru átta sérgreinar lækningarannsókna: blóðmeinafræði, erfða- og sameindalæknisfræði, klínísk lífefnafræði, ónæmisfræði og gigtarrannsóknir, sýklafræði og veirufræði, líffærameinafræði og krufningar ásamt lífsýnasöfnum.

Með tilkomu rannsóknarhússins verður einnig hægt að opna fullkomna áhætturannsóknarstofu þar sem sýni sem grunuð eru um að innihalda mjög hættulegar og bráðsmitandi bakteríur eða veirur, eru tekin til rannsóknar í algjörri einangrun.

Einn virðulegasti banki landsins, sjálfur Blóðbankinn, verður einnig í rannsóknarhúsi Landspítala. Blóðbankinn þjónar öllu landinu og starfsemi hans tekur til allrar blóðsöfnunar- og flokkunar, skimunar, blóðhlutavinnslu, stofnfrumuvinnslu og stofnfrumumeðferðar (e. cellular therapy) sem er nýlegur vaxtarsproti.

Rannsóknarhús er mikilvægur hlekkur í heildaruppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Framundan er lokað útboð þar sem fjögur hönnunarteymi skila inn tillögum. Áætlað er að bygging rannsóknarhúss hefjist árið 2019.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is