"Látum lífeyrissjóði okkar fjármagna nýbyggingar Landspítala"

Myndaniðurstaða fyrir jón hjaltalín magnússonMbl. 23.10.2014

Látum lífeyrissjóði okkar fjármagna nýbyggingar Landsspítala Háskólasjúkrahúss

Jón Hjaltalín Magnússon

Undanfarna tvo áratugi hefur mikið verið fjallað um nauðsyn nýbygginga við Landsspítala Háskólasjúkrahúss (LSH) með tilheyrandi nútíma læknatækjum. Svo virðist sem engin hreyfing verði á þessum mikilvægu nýbyggingum á næstu árum vegna skorts á fjármagni, þar sem sölutekjur af Landssímanum sem Alþingi okkar samþykkti á sínum tíma að verja til þessara bygginga hafa annaðhvort ekki skilað sér eða verið notaðar í eitthvað annað. Undirritaður vill með grein þessari taka þátt í þessari almennu umræðu og setja fram eftirfarandi tvær tillögur um fjármögnun nýbygginga LSH  sem áætlað er að kosti um 50 milljarða króna svo og nauðsynleg læknatæki fyrir um 12 milljarða.

Fjármögnun nýbyggingar LSH
Staðan virðist vera svona haustið 2014 varðandi fjármögnun nýbygginga LSH: Læknar LSH telja að nýbygging megi ekki dragast lengur því stefni heilsugæslu landsmanna í voða svo og eðlilegri endurnýjun lækna spítalans og starfsaðstöðu þeirra. Mikil áhugi er meðal flest allra alþingismanna á  nýbyggingum við LSH. Ekki er gert ráð fyrir fjármagni til nýbygginga LSH á fjárlögum 2015, aðeins til að halda áfram teiknivinnu. Ekki er vilji til að selja eignir okkar Íslendinga í Landsbanka, Landvirkjun, o.fl. til að byggja spítalann heldur til að niðurgreiða lán til að minnka vaxtagjöld og ekki er vilji til að taka lán til að fjármagna nýbyggingar spítalans.

Hvað er þá til ráða til að tryggja um 50 milljarða króna til nýbygginga LSH fyrir utan tækjabúnað og viðhald á eldri hluta spítalans? Leyfi mér að setja fram eftirfarandi tillögu:
Lífeyrissjóðir landsmanna taki þátt í fyrirtækinu „Landsspítalinn ohf“  með 50 milljörðum til að byggja fyrstu áfanga nýbygginga LSH og sem fjármagnað er með „fyrirframgreiðslu staðgreiðslu skatta“ af mánaðarlegum útborgun lífeyris frá lífeyrissjóðunum.”

Í lífeyrssjóðum landsmanna erum víst samstals um 3,000 milljarðar króna, þar af er séreigna-sparnaður um 240 milljarðar og um 500 milljarðar í erlendum hluta- og skuldabréfum. Til að fjármagna þessa 50 milljarða vegna spítalans geta lífeyrissjóðirnir selt erlend hluta- og skuldabréf  og komið með til landsins gegnum „fjárfestingarleið“ Seðlabankans með álagi. Af þessum 3,000 milljörðum í lífeyrissjóðum okkar er ógreidd staðgreiðsla og útsvar um 30% eða samtals um 900 milljarðar sem greiðist á löngu tímabili í ríkissjóð  við útborgun mánaðarlegra greiðslna sjóðanna til lífeyrisþega. Lagt er til að Alþingi Íslendinga setji „neyðarlög vegna lýðheilsu landsmanna“ sem skyldar lífeyrissjóðina til að selja eignir til að greiða fyrirfram hluta af staðgreiðslu lífeyrisþega, sem verður síðan haldið eftir þegar lífeyrissjóðir standa skil á staðgreiðslum skatta næstu 10 árin. Á þessum tíu árum eru lífeyrisjóðirnar eigendur „Landsspítalans ohf” en eignarhaldið yfirfærist til ríkissjóðs samkv. nánara samkomulagi þegar fyrirframgreidda staðgreiðslan með vöxtum er jöfnuð.  Þó svo arðsemi sjóðanna verði hugsanlega ekki ásættanleg fyrstu árin þá er hún virkilega ásættanleg fyrir eigendur sjóðanna, þ.e.a.s. okkur landsmenn sem annt er um heilsu okkar. Hugmyndina má án efa útfæra á margan hátt til að leysa eitt mest aðkallandi vandamál þjóðarinnar varðandi hrakandi heilbrigðisþjónustu. 
 
Fjármögnun tækjabúnaðar LSH
Í  mörg ár hafa nútíma læknatæki verið á óskalista LSH en bíða nýs spítala með tilheyrandi aðstöðu, burðarþoli, o.fl. eins og: Jóneindaskannar (PET/CT), Gammasneiðmyndaskannar (SPECT/CT), Segulómunarskannar, Da Vinci Skurðróbótar, o.fl.  Eitt þessara tækja sem bráðvantar er  PET/CT skanni sem getur greint staðsetningu "virkra krabbameinsfrum" mjög nákvæmlega með því að dæla sérstökum "positrons" (jóneindum) í blóðið sem krabbafrumur taka upp. PET/CT er á óskalista LSH og átti að koma í "nýja spítalann" eins og svo mörg önnur tæki en kostar núna um 900 milljónir miðað við 450 millj. árið 2008 fyrir gengisfellingu krónunar. Danir eiga víst 24 svona PET/CT skanna þar af eru 4 í Rikshospitalen í Kaupmannahöfn.

Hvað er þá til ráða til að tryggja um tólf milljarða króna til nauðsynlegs tækjabúnaðar LSH? Leyfi mér að setja fram eftirfarandi tillögu:

Lífeyrissjóðir landsmanna stofna fyrirtækið „Læknatæki hf“ með aðeins þremur  milljörðum króna í hlutafé til að kaupa og reka „hátæknibúnað"  fyrir LSH svo og alla spítala landsins og þær einkalæknastofur sem það vilja með tilheyrandi viðhalds- og viðgerðarþjónustu.”

Öll dýru læknatækin verða keypt á kaupleigu til 10 ára með sérstökum samstarfssamningum við framleiðendur tækjanna, svo aðeins þarf að borga um 20% út eða 2.5 milljarða fyrsta árið fyrir öll tækin sem kosta samstals um 12 milljarða.  Síðan greiðast um 1 milljarður á ári í kaupleigu/ afborganir með reglulegri uppfærslu á stýri– og hugbúnaði. Sjúkratryggingar og sjúklingar borga reksturinn á næstu árum sem á að standa undir afborgunum, viðhaldi, varahlutum, o.fl. Eftir 10 ár eru tækin eign félagsins og má þá hugsanlega skipta upp í ný tæki. Slíkir kaupleigusamningar eru mjög algengir í viðskiptum aðila með gagnkvæma hagsmuni.

 Höfundur er verkfræðingur, stofnfélagi í “Spítalinn okkar” og fyrrverandi krabbameinssjúklingur


 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 





 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 





Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is