Næsta áherslumál samtakanna kynnt á aðalfundi

 Góðir aðalfundargestir!

Ég býð ykkur öll velkomin til aðalfundar landsamtakanna Spítalinn okkar 2021.  

Það er okkur í stjórninni  alltaf mikil ánægja að koma saman og segja frá því sem á dagana hefur drifið frá síðasta aðalfundi samtakanna. Spítalinn okkar er nú að hefja sitt sjötta starfsár, vinna er hafin við undirbúning að uppsteypu meðferðarkjarnans og verktakinn mættur á svæðið með fjölda manns í vinnu. Við getum sannarleg glaðst yfir því og gaman verður fylgjast með húsinu rísa á næstu þremur til fjórum árum. Jafnframt er unnið að hönnun rannsóknarhússins og þarfagreiningu fyrir nýtt húsnæði göngudeilda.  

Við munum fagna ákaft hverjum áfanga í Hringbrautarverkefninu og treystum því að allar áætlanir standist. Nú eru tvö ár síðan sjúkrahótelið, fyrsta húsið í Hringbrautarverkefninu var tekið í notkun. Það hefur þegar sannað gildi sitt og styður vel við markmið Landspítala að stytta legutíma. Nýtingin er mjög góð eða 90% það sem af er þessu ári og þar með er hótelið vinsælasta hótel landsins.

Í síðasta mánuði hélt stjórnin vinnufund þar sem m.a. var farið yfir hlutverk, markmið og stefnu samtakanna og rætt hvert við ættum að stefna næstu árin. Við sjáum ekki ástæðu til að breyta hlutverki eða markmiðum samtakanna og teljum fulla þörf á að þau starfi áfram. Við finnum fyrir áhuga og stuðningi við stefnu samtakanna. Það er okkur jafnframt hvatning að finna að barátta okkar fyrir framkvæmdunum við Hringbraut hefur skipt máli. Nú eru framkvæmdir þar á góðri siglingu, við viljum því beina kröftum okkar að verkefni sem einnig skiptir starfsemi Landspítala miklu máli, en er ekki á áætlun stjórnvalda í Hringbrautarverkefninu.

Stjórnin ákvað því á vinnufundinum að næstu árin munum við leggja sérstaka áherslu á húsnæði fyrir geðþjónustu Landspítala. Það samræmis vel tilgangi samtakanna að stuðla að nýbyggingu og endurnýjun Landspítala háskólasjúkrahúss, þannig að húsakostur, tæknibúnaður og aðstaða sjúklinga og starfsfólks spítalans þjóni nútímaþörfum. Líkt og önnur starfsemi Landspítala er geðþjónustan í gömlum byggingum á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. 

Á mínum yngri árum vann ég við hjúkrun á háskólasjúkrahúsinu í Edinborg. Elsta byggingin þar var frá árinu 1879 og hýsti á þeim árum yfirstjórn spítalans. Meginstarfsemin var í byggingum sem byggðar voru á árum 1925–1948. Árið 2003 flutti háskólasjúkrahúsið í nýtt og stærra húsnæði. Þá var elsta byggingin sem notuð var fyrir þjónustu við sjúklinga 80 ára gömul.

Hvers vegna kemur þetta upp í huga minn í dag? Jú, elsta bygging Landspítala, Kleppsspítali er meira en 110 ára gömul og sannarlega barn síns tíma. Hún hentar alls ekki nútíma geðheilbrigðisþjónustu, sem þar er þó sinnt af alúð og allir leggja sig fram um að veita þar nútíma þjónustu við erfiðar aðstæður.

Bráðadeildir geðþjónustunnar sem staðsettar eru við Hringbraut eru í húsnæði sem tekið var í notkun árið 1972. Húsnæðið er víða þröngt og dimmt og hentar illa fyrir einstaklinga í bráðaástandi og aðstandendur þeirra. Miklar breytingar hafa orðið á síðustu árum í meðferð geðsjúkdóma og því er mikil þörf fyrir nýtt húsnæði. Nanna Briem geðlæknir mun segja okkur meira um það í fyrirlestri hér á eftir.   

Áformað er að kynna áherslur samtakanna fyrir heilbrigðisráðherra og Geðhjálp, en Héðinn Unnsteinsson formaður Geðhjálpar flytur lokaorð hér í dag. 

Við í stjórn Spítalans okkar erum sannfærð um að húsnæðimál geðþjónustu Landspítala sé verðugt næsta verkefni fyrir samtökin og treystir því að félagar í samtökunum standi með stjórninni í því verkefni.  Að því sögðu munum við áfram fylgja eftir markmiðum okkar sem tengjast meðferðarkjarnanum, rannsóknarhúsinu og göngudeildarhúsinu.  

Góðir gestir  ég segi aðalfund samtakanna Spítalinn okkar árið 2021 settan, bið Guðmund Þorgeirsson að stýra fundi og Oddnýju Sturludóttur að rita fundargerð.   

 

 

 

 


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is