Ræða Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítala

Ráðherra vék að uppbyggingunni sem framundan er við Hringbraut, með eftirfarandi orðum:

„Eins og öllum sem hér eru er ljóst stendur bygging Nýs Landspítala yfir. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, er gert ráð fyrir tæplega 75 milljarða króna fjárfestingu í sjúkrahússþjónustu. Stærstur hluti þess fjármagns rennur til uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut, en meginþungi framkvæmda við nýjan spítala við Hringbraut mun fara fram á árunum 2020-2023. Gangi áætlanir eftir lýkur byggingu spítalans svo árið 2024. Fullnaðarhönnun við byggingarnar stendur nú yfir og við þá vinnu hefur aðferðafræði notendastuddrar hönnunar verið nýtt. Það þýðir að hagsmunaaðilar og þeir sem koma munu að þjónustunni taka virkan þátt í hönnunarferlinu.

Með Nýjum Landspítala bætist til muna öll aðstaða fyrir sjúklinga og starfsfólk og gerir sjúkrahúsinu kleift að auka gæði starfseminnar sem og öryggi sjúklinga og starfsmanna og að veita skilvirkari þjónustu. Til að tryggja samfellu og sem besta yfirsýn yfir þetta verkefni hef ég sett á stofn sérstakt samstarfsráð. Markmiðið með ráðinu er að efla enn frekar samráð og miðlun upplýsinga þannig að áætlanagerð, framkvæmdir og forgangsröðun taki mið af áherslum aðila samstarfsráðsins en það skipa ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins sem veitir því forystu, forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss, rektor Háskóla Íslands, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og stjórnarformaður NLSH ofh.

Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess hve margar stórar ákvarðanir eru framundan sem varða þessa uppbyggingu en ekki síður ákvarðanir sem lúta að ráðstöfun og nýtingu eldri bygginga, ásamt tækjakosti, ásamt flutningi og starfsemi spítalans á framkvæmdatímanum að stilla saman strengi í hverju skrefi. Ég hef miklar væntingar til þess að með samstarfsráðinu takist að stýra þessu stærsta uppbyggingarverkefni Íslandssögunnar farssællega í höfn.“

 

Ræðu ráðherra í heild sinni má lesa hér.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is