Rangfærslur leiðréttar

Rennur þeim Guðlaugi Gauta og Ásu blóðið til skyldunnar?

Það var dapurt að lesa viðtal við Guðlaug Gauta Jónsson, arkitekt og Ásu Steinunni Atladóttur, hjúkrunarfræðing og talsmenn Samtaka um betri spítala á betri stað, í Reykjavík vikublaði þann 2. apríl. Þar var mikið af rangfærslum um nýjan Landspítala við Hringbraut sem maður átt síst von á frá fólki sem er annt um spítalann okkar.

Hér verða nefnd nokkur dæmi:

• Guðlaugur Gauti talar um 290.000 fermetra af byggingum á fullbyggðri lóð við Hringbraut sem jafngildi 10 Borgarspítölum. Hér er verið að reyna að gera miklu meira úr þessum framkvæmdum en er í raunveruleikanum. Núverandi byggð á svæði Landspítala (LSH) og Læknagarðs er 73.610 fermetrar eða þrír og hálfur Borgarspítali. Byggingar samkvæmt núverandi og nýju deiliskipulagi verður að hámarki 220.000 fermetrar þegar lóðin er fullbyggð og það er langt fram í tímann. Þá er þar einnig heilbrigðisvísindasvið HÍ komið á staðinn og margar aðrar byggingar og þróunarmöguleikum, m.a. randbyggð næst Hringbraut sem er hugsuð fyrir rannsóknar og nýsköpunarfyrirtæki á sviði heilbrigðisvísinda. Þetta er því alls ekki samanburðarhæft.

• Guðlaugur Gauti talar einnig um að legupláss í nýjum spítala við Hringbraut verði 220 og þar með umtalsvert færri en í Fossvogi. Það er ekki rétt. Þau eru nú um 180 í Fossvogi og þau verða því fleiri í meðferðarkjarnanum. Hið rétta er að þau verða 244 í nýja spítalanum, þar af 200 á bráða legudeildum, 24 á gjörgæslu og 20 á skammtíma legudeild. Í seinni byggingaráföngnum er gert ráð fyrir 144 sjúkrarúmum til viðbótar. Auk þess eru 75 gistirými á nýju sjúkrahóteli á lóðinni sem opnar á næsta ári. Stóra breytingin er að þetta eru allt einbýli sem gjörbreytir allri aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandendur. Reynslan sýnir að það styttir legutíma, auðveldar bata og dregur úr sýkingum.

• Ása vitnar í staðsetningu Landspítala og er greinilega enn í hópi þeirra sem er ekki sátt með að Fossvogur varð ekki fyrir valinu. Það er mál til komið að slíkum átökum linni. Það er lágmarkskrafa að fara með rétt mál og vera ekki með gífuryrði um bútasaum, öskubuskuheilkenni og annað í þeim dúr. Í þessari EMENTOR skýrslu sem Ása vitnar í voru þrír staðir skoðaðir. Við Hringbraut, í Fossvogi og á Vífilstöðum. Það var niðurstaða starfsnefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í janúar 2002 að starfsemin skyldi öll sameinuð við Hringbraut og ekki hægt að lesa út úr þeim gögnum annað en Hringbraut sé besti kosturinn. Öll gögn um þetta eru á heimasíðu Nýs Landspítala (www.nyrlandspitali.is)

• Árið 2004 var skýrsla um heildarkostnað framkvæmdanna og áfangaskiptingu þeirra til 14 ára kynntar, ásamt tillögu að alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um skipulag lóðarinnar. Í ársbyrjun 2005 gáfu stjórnvöld grænt ljós á samkeppnina, forval var auglýst og sóttu 18 fjölþjóðlegir hópar sérfræðinga um þátttöku. Var sjö stigahæstu boðið að keppa um skipulagið samkvæmt keppnislýsingu sem samin var af fulltrúum Landspítala, Háskóla Íslands og Framkvæmdasýslu ríkisins á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar.

• Ása talar einnig um að 5.000 máltíðir fari um Eiríksgötuna. Flestar máltíðanna er neytt innan spítalans og fara með sjálfvirkum vögnum um gangana. Sama gildir með óhreint lín. Það er ekki eins og nútímatækni sé ekki beitt og hægt sé að horfa áratugi til baka til gamalla vinnubragða. Vinnubrögðin í nútíma sjúkrahúsbyggingum eru allt öðruvísi en var fyrir nokkrum áratugum. Upplýsingatækni með þráðlausum kerfum, rörum í byggingum fyrir flutning á líni og nútímatækni er notuð við birgðahald og flutninga við rekstur spítalans. Sama gildir með flutninga á sjúklingum. Þeir verða í lágmarki. Allar vegalendir í meðferðarkjarnanum verða stuttar. Lyftur eru við skurðstofur, bráðamóttöku og gjörgæsludeild. Legudeildir eru á efstu hæðum. Gangar eru alls ekki margir kílómetrar. Það mætti halda að dauðagangar séu um allar byggingar.

Hundruð starfsmanna hafa verið að vinna að frumhönnun og fullnaðarhönnun er í gangi. Þeim sem vinna að þessu er fullkomlega treystandi. Það væri óskandi að þeir sem eru að fjalla um hönnun og rekstur nýja Landspítala í fjölmiðlum kynni sér málið betur, en reki ekki rýting í Landspítalann við Hringbraut með það að markmiði að veita honum sár svo úr blæði.

Umfjöllun um ástandið á Landspítala þessar vikur og mánuði ætti að vera öllum hvatning að keyra verkefnið hratt áfram.

Þorkell Sigurlaugsson,
varaformaður stjórnar Spítalans okkar


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is