Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2020

Skýrsla stjórnar Spítalans okkar fyrir starfsárið 2020   

Tilgangur og markmið

Tilgangur félagsins er að stuðla að nýbyggingu og endurnýjun Landspítala háskólasjúkrahúss, þannig að húsakostur, tæknibúnaður og aðstaða sjúklinga og starfsfólks spítalans þjóni nútímaþörfum.

Markmið félagsins er þríþætt:

  • Að efla stuðning og skilning meðal almennings og stjórnvalda á nauðsynlegum úrbótum á húsakosti spítalans.
  • Að varpa ljósi á brýna þörf uppbyggingar á spítalaþjónustu vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar og breytinga í aldurssamsetningu þjóðarinnar, og nauðsynlegum framförum í þjónustu og meðferð sjúklinga.
  • Að kynna fyrirliggjandi áætlanir um endurnýjun og viðbætur  húsnæðis Landspítala.

Aðalfundur árið 2020

Aðalfundur Spítalans okkar var haldinn á Nauthól þann 9. júní árið 2020. Fundinn sátu 40 félagar.

Á aðalfundinum voru endurkjörnir í stjórn: Anna Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur, formaður, Gunnlaug Ottesen, stærðfræðingur, Guðrún Ágústsdóttir fyrrverandi forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, Jón Ólafur Ólafsson arkitekt, Oddný Sturludóttir aðjunkt og verkefnastjóri í HÍ og Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri. Kristján Erlendsson sérfræðilæknir á Landspítala gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Í hans stað var kjörinn Ásgeir Þór Árnason framkvæmdastjóri Hjartaheilla.

Á fundinum kom m.a. fram að á árinu 2019 hófust framkvæmdir við jarðvegsvinnu og gatnagerð á Hringbrautarlóðinni. Tekin var skóflustunga að nýjum meðferðarkjarna að viðstöddu fjölmenni. Byggingarleyfi fyrir meðferðakjarna var samþykkt af Reykjavíkurborg.  Samið var við hönnunarteymið Corpus um hönnun rannsóknarhúss. Sjúkrahótelið hóf starfsemi í maí 2019 og var það langþráður viðburður. 

Að loknum aðalfundarstörfum voru flutt tvo erindi. Ögmundur Skarphéðinsson, arkitekt flutti erindi sem hann nefndi Skyggnst inn í nýjan meðferðarkjarna Landspítala. Ögmundur sýndi þrívíddarmyndir af völdum einingum meðferðarkjarnans og fjallaði um það hvernig hönnun sjúkrahúsbygginga, birta og gróður getur stuðlað að heilsu manna.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdóma Landspítala flutti erindi um hlutverk meðferðarkjarna á tímum farsótta. Hann fór yfir hönnun meðferðarkjarnans og hvernig sveigjanleiki hennar gerir heilbrigðisstéttum kleift að takast á við flóknar farsóttir.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga flutti lokaorð og fjallaði um tækninýjungar og framtíðarsýn í heilbrigðismálum. Hún lagði áherslu á að bygging nýs Landspítala snúist ekki um umferðarteppur, burðarþol og skipulagsmál. Bygging nýs Landspítala snúist um fólk og samstarf fagstétta.

Stjórnarstarfið

Stjórn Spítalans okkar hélt sex fundi á starfsárinu. Á fyrsta fundi eftir aðalfund skipti stjórnin með sér verkum á þann veg að Þorkell Sigurlaugsson var kjörinn varaformaður, Oddný Sturludóttir ritari og Gunnlaug Ottesen gjaldkeri. Anna Stefánsdóttir hafði verið kjörin formaður á aðalfundi. Fundargerðir stjórnar eru birtar á heimasíðu samtakanna, www.spitalinnokkar.is

Fundir stjórnar með framkvæmdastjóra NSLH voru fáeinir en stjórnin fylgdist með framkvæmdum á Hringbrautarlóðinni í framkvæmdafréttum NLSH sem birtar eru reglulega á heimasíðu þeirra. Þar er hægt að fylgjast með stöðunni á verkefnunum á framkvæmdasvæðinu við Hringbraut, bæði í máli og myndum. Alls var birt 21 framkvæmdafrétt á árinu 2020.

Byggingaverkefnið

Jarðvegsvinnu og gatnagerð fyrir meðferðarkjarnann lauk á vormánuðum 2020. Einnig var unninn jarðvegur vegna bílakjallara undir Sóleyjartorgi og tengingar milli meðferðarkjarna og rannsóknarhúss. Jarðvegsvinnu lauk snemma sumars 2020. Unnið var að uppsetningu vinnubúða fyrir byggingaverktakann á haustmisseri. Samið var við verktakafyrirtækið Eykt ehf. um uppsteypu á meðferðakjarna.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2021-2026 er gert ráð fyrir að meginþungi framkvæmda við byggingu meðferðarkjarna og rannsóknarhúss verði á árunum 2021-2023 og að þeim ljúki ekki fyrr en árið 2025-2026.

Meðferðarkjarninn er stærsta og flóknasta framkvæmd Hringbrautarverkefnisins, um 70.000 m² að stærð. Mikil áhersla er á öryggi og stöðugleika byggingarinnar, ekki síst vegna mögulegra jarðaskjálfta á höfuðborgarsvæðinu. Með tilkomu meðferðarkjarnans verður mikil og jákvæð breyting á aðstöðu sjúklinga, aðstandenda þeirra og starfsfólks. Þar verður öll bráðastarfsemi spítalans, 210 legurými, öll einbýli, auk þess sem rýmum fjölgar á gjörgæslu- og móttökudeild.

Með örum tæknibreytingum í heilbrigðisþjónustu eykst þörfin fyrir öfluga dag- og göngudeildarstarfsemi við Landspítala. Eins og oft hefur komið fram er húsnæði Landspítala barn síns tíma og ekkert sérútbúið húsnæði fyrir göngudeildarstarfsemi. Þau gleðitíðindi urðu á árinu 2019 að heilbrigðisráðherra fól NLSH að bjóða til forvals um hönnun göngudeildarhúss að stærð 20.000 fermetra. Vinna er nú hafin við þarfagreiningu á nýju dag -og göngudeildarhúsi fyrir starfsemi Landspítala.

Spítalinn okkar hefur frá upphafi lagt áherslu á að ekkert megi verða til að tefja byggingarframkvæmdir og hönnunarferli nýs Landspítala við Hringbraut. Í meðferðarkjarnanum verður eina sérhannaða  smitsjúkdómadeild landsins og ljóst að ef meðferðarkjarninn hefði verið risinn hefði það auðveldað starfsfólki Landspítala í glímunni við COVID-19 faraldurinn sem í nokkrar vikur skók starfsemi spítalans.

Lesa má um framkvæmdirnar á Hringbrautarlóðinni á heimasíðu Nýs Landspítala www.nyrlandspitali.is

Lokaorð

Spítalinn okkar hefur notið stuðnings ýmissa aðila við kynningarstarfið. Þekking hf. hýsir tölvupóst samtakanna og Stefna hugbúnaðarhús hýsir heimasíðu samtakanna okkur að kostnaðarlausu. Þeim er þakkað fyrir velvilja í garð samtakanna.

Stjórnin ítrekar að hröð uppbygging nýs húsnæðis Landspítala er hagsmunamál allra Íslendinga enda höfum við dregist hratt aftur úr öðrum þjóðum á undanförnum árum hvað varðar aðstöðu og húsnæði fyrir heilbrigðisþjónustu. 

Stjórnarfólki í Spítalanum okkar er þakkað fyrir sérstaklega ánægjulegt og óeigingjarnt starf í þágu samtakanna og félagsmönnum samtakanna fyrir stuðninginn við okkar mikilvæga verkefni. Áframhaldandi stuðningur ykkar er ómetanlegur. Okkar verkefnum er hvergi nærri lokið.

Anna Stefánsdóttir, formaður stjórnar.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is