Spítalinn okkar með öflugt kynningarstarf

Spítalinn okkar með öflugt kynningarstarf
Gestir aðalfundar

Aðalfundur Spítalans okkar var haldinn í gær á Icelandair Hótel Reykjavík. Í skýrslu stjórnar er rakið það helsta í starfi stjórnar á árinu 2015. Þar kom fram að í kynningarstarfinu hefur megináherslan verið á að ekkert verði til að tefja byggingarframkvæmdir nýs Landspítala og að byggt verði í samræmi við fyrirliggjandi ákvarðanir. Spítalinn okkar hefur frá upphafi lagt áherslu á að ekkert megi verða til að tefja byggingarframkvæmdir.

Helstu rökin fyrir því er gamalt húsnæði Landspítala sem svarar ekki kröfum um nútíma heilbrigðisþjónustu, t.d. er bráðastarfsemi Landspítala rekin í mjög gömlu húsnæði sem hentar alls ekki slíkri starfsemi. Þá er starfsemi spítalans rekin á mörgum stöðum víða um höfuðborgarsvæðið. Þetta hefur í för með sér umtalsverð óþægindi fyrir sjúklinga og aukinn kostnað fyrir samfélagið.  

Mikil vinna liggur að baki áætlunum um löngu tímabæra endurnýjun þjóðarsjúkrahússins. Þekking hefur verið sótt erlendis og samstaða er meðal starfsfólks Landspítala um framkvæmdina. Umtalsverð vinna var lögð í staðarval á sínum tíma og fyrir liggur samþykkt deiliskipulag á Landspítalalóð. Mikið samstarf er milli Landspítala og heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, sem deila um 200 sameiginlegum starfsmönnum.

Í framtíðinni mun rísa öflugt þekkingarsamfélag í Vatnsmýrinni og er Landspítali einn mikilvægasti hlekkurinn þar. Embættismenn og ráðgjafar sem aðkomu hafa átt að undirbúningi staðarvals endurnýjaðs þjóðarsjúkrahúss hafa margáréttað að þrennt liggi til grundvallar staðsetningu á Hringbraut:

1) Gott aðgengi m.t.t. samgangna, 2) hagkvæmni í uppbyggingu og 3) mikið samstarf við stofnanir í nágrenninu. Hringbrautin hefur þá kosti sem vega þyngst hvort sem horft er til faglegra eða fjárhagslegra þátta. Hér má lesa skýrslu stjórnar í heild sinni


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is