Staðarval og staðleysur

Landspítali – Staðarval og staðleysur
Eftir Jón Ólaf Ólafsson

87 þúsund Íslendingar krefjast þess að Alþingi verji umtalsvert meira fé til þess að koma í veg fyrir frekari hnignun heilbigðiskerfisins[i],  ekki síst að renna frekari stoðum undir stórefldan rekstur Landspítala háskólasjúkrahúss – Spítalans okkar allra.

Krefjendur telja að auka þurfi árleg framlög um rúmlega fjórðung til þess að viðvarandi árangur náist. Fjármálaáætlun rísisstjórnarninar til næstu fimm ára gerir og ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega og stefnt að því að framkvæmdir við meðferðarkjarna Landspítalans verði boðnar út árið 2018.[ii]

Samstaðan um uppbyggingu Landspítala er mjög víðtæk. Knýjandi þörf er á tafarlausum endurbótum og enginn mælir gegn mikilvægi þess að ráðast í þessa framkvæmd sem stuðlar að allra hag.

Og þó.

Í hvert skipti sem jákvæðar fréttir berast af áformum um áframhaldandi uppbyggingu Landspítala stígur fram hávær hópur sem finnur verkefninu allt til foráttu. Hann krefst þess að fallið verði frá frekari uppbyggingu á lóð Landspítalans við Hrinbraut og byggður verði annar spítali á öðrum stað. Auðvitað er ekki hægt að fullyrða að önnur óskilgreind staðsetning færi okkur betri spítala, henti borgurunum betur, styrki borgarsamfélagið né auki gæði þjónustunnar. Fyrir þessum fullyrðingum eru haldlítil rök byggð fyrst og fremst byggð á óskhyggju og fagurgala.

Fjölmargir þættir skipta máli í umræðu um Landspítala og staðsetningu hans en aðeins nokkrum gerð skil hér.

Í fyrsta lagi verður því ekki jafnað saman að halda áfram uppbyggingu Landspítala við Hringbraut og að byggja annan spítala á öðrum stað. Á nýjum stað þyrfti að byggja allt að tvöfalt meira en við Hringbraut – meira en 56 þúsund m2. Af því hlýst 25–35 milljarða óþarfur framkvæmdarkostnaður. Það er sóun á almanna fé og það þarf engan sérfræðing til að sjá að slík framkvæmd mun taka umtalsvert lengri tíma.

Í öðru lagi er tíminn afgerandi þáttur. Öryggi sjúklinga er að óbreyttu stefnt í voða og biðin eftir meðferðarkjarna er þegar orðin allt of löng. Nýi meðferðarkjarninn verður fyrst tilbúinn til notkunar 2023, sem er óbærilega langur tími bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Sérfræðilæknar geta í fyrsta lagi hafið störf við bestu aðstæður eftir 7 ár og frekari dráttur á byggingu meðferðarkjarnans dregur úr líkum á að læknar í sérfræðinámi leyti „heim“ að loknu námi. Forsvarsmenn Landspítala vilja eðlilega hraða framkvæmdum við meðferðarkjarna eftir því sem kostur er, en Alþingi og ríkisstjórn hefur ekki fengist til að skuldbinda ríkissjóð til að flýta byggingu meðferðarkjarnans.

Sérfræðingar í byggingarframkvæmdum vita að hægt er að byggja meðferðarkjarnan á skemmri tíma fáist til þess fjármagn. Sömu lögmál gilda því hvort sem haldið verður áfram uppbyggingu við Hringbraut eða ákveðið að byggja annars staðar. Fullyrðing um að hægt verði að byggja hraðar á öðrum stað stenst ekki skoðun.

Í þriðja lagi er einfaldlega rangt að fagleg óháð staðarvalsgreining hafi ekki farið fram og hún tortryggð. Mismunandi valkostir hafa ítrekað verið teknir til skoðunar og endalega niðurstaðan er sú að halda áfram uppbyggingu Landspítala við Hringbraut.

Nýtt staðarval verður ekki unnið með hraði og mun því draga verulega úr framkvæmdahraða við byggingu Landspítala. Staðarvalsgreiningartæki er ekki stöðluð hilluvara sem hægt er að kaupa og beita líkt og hamar og sög. Pólitískan einhug þarf um skipan stýrihóps sem ber ábyrgð á staðarvalsgreiningu og ráða verður sérfræðinga til þess að meta valkosti. Kröfur til tækisins og notkun þess þarf að skilgreina áður en því verður beitt því einhlít aðferð til að greina og meta mismunandi valkosti er einfaldlega ekki til. Í þessu samhengi er hollt er að horfa til niðurstöðu stýrihóps Rögnu Árnadóttur sem falið var að fullkanna aðra kosti til rekstrar innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu[iii]. Hátt í tvö ár tók að ljúka skýrslunni sem varð skotspónn gagnrýnenda. Víglínur þokuðust því ekki og enn hefur ekki skapast einhugur um framtíð innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu. Því má álykta að fullyrðingin um að ný staðarvalsgreining fyrir Landspítala taki stuttan tíma sé hæpin og eins líklegt að víglínur þokist ekki hvað sem líður niðurstöðunni. Almannafé verður því sóað ef ráðist verður í nýtt staðarval þvert á væntingar stjórnenda spítalans, þvert á samþykkt allra sveitarélaga höfuðborgarsvæðisins og í andstöðu við yfirlýstan vilja Alþingis og ríkisstjórnar.

Í fjórða lagi. „Búsetumiðja“ höfuðborgarsvæðisins er nálægt Kringlusvæðinu og í því ljósi væri rökrétt að halda áfram uppbyggingu við Hringbraut verði krafa um að staðsetja „nýjan“ spítala nálægt miðju byggðar ráðandi. En hafa ber í huga að fólk veikist og slasast hvort sem er á heimilum, í vinnu/skóla, í frístundum og félagslífi, á skemmtistöðum, á leið heiman og heim. Í miðborg Reykjavíkur eru margir stærstu vinnustaðir landsins, miðstöð menningar og skemmtanalífs. Þar eru háskólar, ráðuneyti, flugstöð og Alþingi, kirkjur, veitingastaðir og kvikmyndahús. Í miðborginni eru hótel og hótelíbúðir flestar og þar á fólk líka heima. Enn frekari uppbygging er fyrirhuguð í samræmi við stefnu um þéttingu byggðar. Veikt fólk og slasað leitar á bráðamóttöku sjúkrahúss og fráleitt að miða við að það komi alltaf heiman að. Það er því rökvilla að staðsetning spítala í austar í borginni sé land- og lýðfræðilega heppilegri staðsetning.

Í fimmta lagi. Staðsetning þjóðarsjúkrahúss má aldrei ráðast af sérhyggju einstakra ráðamanna. Niðurstaða almennra viðhorfskannanna er heldur ekki tæk aðferð til að ákvarða aðra staðsetningu. Staðsetning Landspítala er m.a. bundin í svæðiskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem nær yfir 7 sveitarfélög með yfir 211.00 íbúum[iv]. Svæðisskipulag er rétthærra öðrum skipulagsáætlunum[v]. Það er háð samþykki allra hlutaðeigandi sveitarstjórna og staðfestingu umhverfisráðherra[vi]. Það er því hvorki á valdi Alþingis, heilbrigðisráðherra, né einstakra annarra sjálfskipaðra að ákvarða annan stað fyrir Landspítala. Áður en lagt verður í þessa vegferð verður skýr og sameiginlegur vilji sveitarfélaganna sjö að liggja fyrir. Hafni eitt sveitarfélaganna endurskoðun staðsetningar er sú leið ófær. Málflutningur sem kyndir undir að auðvelt sé og sjálfsagt að skoða nú aðrar mögulegar staðsetningar er því óboðlegur.

Í sjötta lagi. Ef hætt verður uppbyggingu Landspítala við Hringbraut færist allt á byrjunarreit. Fresta þarf áframhaldandi hönnun sem er í fullum gangi, endurskoða verður svæðisskipulag og aðrar skipulagsáætlanir. Breyta þarf lögum um byggingu og fjármögnun og skilgreina ný viðmið um staðsetningu og uppbyggingu í samráði við mjög stóran hóp hagsmunaaðila. Framkvæma þyrfti nýja staðarvalsgreiningu, ráðstafa nýju landi og kaupa það undir nýjan spítala. Endurskoða þyrfti vegaáætlanir og gatnakerfi. Þá yrði óhjákvæmilegt að endurmeta þarfagreiningu í ljósi breyttra aðstæðna og í kjölfarið bjóða hönnun út að nýju. Ef tíminn sem liðinn er frá upphafi núverandi áforma um áframhaldandi uppbyggingu á Landspítala við Hringbraut er hafður til hliðsjónar er varlegt að áætla að stefnubreyting í uppbyggingu Landpítala muni að lágmarki kosta önnur átta til tíu ár, áður en framkvæmdir við nýja Landspítala geta hafist.  Það er algerlega óviðunandi.

Hringlandi í staðsetningu Landspítala hefur þegar valdið óvissu og skaða. Óþarfa tíma hefur verið sóað við að hemja óskhyggju og leiðrétta rangar fullyrðingar. Við verðum nú að sameinast um einu raunhæfu lausnina á bráðavanda Landspítlans og tryggja öryggi sjúklinga og sæmandi starfsaðstöðu til þess að SPÍTLALINN OKKAR verði fær um að veita sambærilega þjónustu og best gerist meðal nágrannaþjóða. Uppbygging Landspítala þolir ekki frekari bið.

__________

Höfundur er arkitekt, vottaður verkefnastjóri MPM og í stjórn Samtakanna Spítalinn okkar



[i] Sótt á heimasíðu 2. maí 2016, sjá: http://www.endurreisn.is/

[ii] Sótt á mbl.is þann 2. apríl 2016, sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/30/aaetlunin_i_takt_vid_krofu_undirskriftanna_2/

[iii] Sjá skýrslu stýrihóps um flugvallakosti á höfuðborgarsvæðinu: http://www.visir.is/assets/pdf/XZ1885625.PDF

[iv] Tekið af heimasíðu samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 3. maí 2016, sjá: http://ssh.is/hofudborgarsvaedid

[v] Sjá 12. gr. skipulagslaga nr. 123 2010

[vi] Sjá 22. gr. skipulagslaga nr. 123 2010


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is