Uppbygging Landspítala við Hringbraut er mikilvægasta velferðarmálið

Uppbygging Landspítala við Hringbraut - mikilvægasta velferðarmálið

Í Morgunblaðinu 11. október var grein um Landspítala með þann boðskap að best sé að byggja nýjan spítala á einhverjum allt öðrum stað en við Hringbraut. Greinin er á ábyrgð 11 einstaklinga, skrifuð til að ná athygli fyrir kosningar. Greinarhöfundar eru hluti af baráttuhópi sem gengur undir nafninu „Samtök um betri spítala á betri stað“ (SBSBS). Hópurinn hefur rekið linnulausan áróður undanfarin misseri gegn uppbyggingaráformum við Hringbraut.

Meðferðarkjarni og rannsóknarhúsið, langstærstu og brýnustu framkvæmdirnar eiga loksins að verða tilbúnar árið 2023, eða eftir sjö ár. Það miðast þá við að engin truflun verði á núverandi áformum. Að mati Framkvæmdasýslu ríkisins, Skipulagsstofnunar og fleiri aðila þá mun það aftur á móti lengja tímann um 10-15 ár eða til 2033-2038 ef byggja skal Landspítala á nýjum stað.

Sjúkrarúmum fjölgar um 48 en þeim fækkar ekki um 124

Ein af mörgum rangfærslum í greininni er að sjúkrarúmum fækki um 124 þegar spítalastarfsemin í Fossvogi flyst á Hringbraut. Staðreyndin er sú að rúmum fjölgar um 48 eða úr 168 í Fossvogi í 220 í meðferðarkjarnanum auk fjölgunar á bráðamóttöku og gjörgæslu. Til viðbótar opnar strax á næsta ári sjúkrahótel með 75 herbergjum, á lóð Landspítalans. Þar verða meðal annars sjúklingar sem í dag dvelja á Landspítala því þeir komast ekki strax heim. Það væri algjör óþarfi að byggja tvöfalt stærri meðferðarkjarna en núverandi hönnun byggir á eins og greinahöfundar telja þurfa.

Hinn dæmalausi 100 milljarða króna sparnaður

Í útreikningum SBSBS frá árinu 2015, er gert ráð fyrir 101,9 milljarða sparnaði skattgreiðenda að núvirði ef spítalinn verður byggður á svokölluðum „besta stað“. Þetta er endemis vitleysa og sparnaðurinn rökstuddur með

  • Söluverðmæti eigna Landspítala við Hringbraut,
  • minni fjárfestingum í umferðamannvirkjum,
  • sparnað vegna minni rekstrarkostnaðar í sérbyggðu stóru sjúkrahúsi á nýjum stað
  • og – rúsínan í pylsuendanum, með minni ferðakostnaði notenda spítalans.

Myndin hér að neðan er tekin úr skýrslu SBSBS, þar sem hagræðing upp á 101,9 milljarða króna er sundurliðuð.

 

Hér er ævintýralega slumpað á upphæðir. Svo er 12,4 milljarða viðbótarkostnaður við að byggja á nýjum stað verulega vanmetinn. Ný bygging á nýjum stað yrði 130.000 fermetrar að stærð og það þótt stærð meðferðarkjarnans yrði óbreytt. Að fjármagna slíka byggingu og að byggja hana er meira en að segja það.

Svo er það þetta með söluandvirði eigna og umferðarmannvirkin

Söluandvirði eigna við Hringbraut nemur 17 milljörðum króna, samkvæmt útreikningum SBSBS. Það er á engan hátt rökstutt og stangast á við fyrri yfirlýsingar SBSBS um að byggingarnar við Hringbraut séu ónothæfar! Hvar eru kaupendur þessara bygginga og lands sem þær standa á og hvert renna peningarnir og hvenær?

Reykjavíkurborg hefur úthlutað lóð við Hringbraut undir Landspítala. Ef spítali verður ekki á lóðinni þá kemur ríkið ekki sisvona inn í málið og selur byggingar og byggingarland fyrir 17 milljarða til einhverra aðila undir einhvern allt annan rekstur.

Fjárfesting í umferðarmannvirkjum telur SBSBS að verði minni um heila 15 milljarða ef Landspítalinn er fjær miðbænum. Aðeins talað um „besta stað“, sem enginn veit hvar er. Það kostar ekki 15 milljarða að lagfæra umferðarmannvirki við Hringbraut. Umferðarvandi höfuðborgarsvæðisins er heldur ekki Landspítala að kenna og það mun ávallt þurfa að koma til samgöngubót á og við Hringbraut, þó eitthvað annað en Landspítali verði á svæðinu.

Samtök sveitarfélaga hafa ákveðið að standa saman um uppbyggingu svokallaðar „borgarlínu“, meginsamgönguæð almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Hún yrði með tengingu við BSÍ reitinn, framtíðar samgöngumiðstöð höfuðborgarsvæðisins. Þessi samgöngumiðstöð  stendur einmitt í bæjarhlaði Landspítalasvæðisins.

Reyfarakendir excelútreikningar!

Rúsínan í pylsuendanum í útreikningum SBSBS er hinn ímyndaði lægri ferðakostnaður notenda spítalans, upp á 62,3 milljarða króna ef spítali verður byggður á „besta stað“.

Það eru sumsé notendur Landspítala sem spara mest! SBSBS líta til viðmiða opinberra aðila um aksturskostnað, reikna kostnað þeirra sem koma keyrandi á spítalann og launa þeirra, bæta fjölda ferða til og frá spítalanum inn í dæmið og reikna svo hagræðið út frá mögulegum styttri vegalengdum. Hver segir að starfsmenn spítalans og sjúklingar búi jafndreift frá spítalanum? Ekki er horft til þess hvar starfsfólk og nemendur muni búa í framtíðinni eða hvernig almenningssamgöngur þróast. Nemendur búa til dæmis í vaxandi mæli í stúdentaíbúðum á háskólasvæðunum. Summan af þessum æfingum er sparnaður einstaklinga við ímyndaðan akstur í ímynduðum bíl frá óljósum ímynduðum stað, á svokallaðan ímyndaðan „besta stað“ fyrir Landspítala – sem enginn veit hvar er.

Bráðnauðsynlegt að klára núverandi uppbyggingu við Hringbraut

Staðarvalið við Hringbraut var metið í nánu samstarfi allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Alþingis, Landspítala og hönnuða. Staðreyndin er sú að Hringbraut er langbesti staðurinn fyrir þróun og uppbyggingu Landspítala og minnstur kostnaður er við að sameina alla bráðasjúkrahússtarfsemi í háskólasjúkrahúsi við Hringbraut.

Við sem viljum klára uppbyggingu Landspítala höfum lagt áherslu á að berjast fyrir málinu með faglegri umræðu, raunsæi og skynsemi að leiðarljósi. Við bendum einfaldlega á að það er óhagstætt, gífurlega kostnaðarsamt, tímafrekt og áhættusamt að byrja staðvarvalsverkefnið upp á nýtt. Íslendingar þurfa ekki enn einn hringinn í uppbyggingarmálum Landspítala. Þá væri þetta orðin hringbrautarvitleysa.

Flestir stjórnmálaflokkar eru tilbúnir að halda áfram nauðsynlegri uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Sá stjórnmálaflokkur sem ætlar að reyna að fá kjósendur til fylgis við sig með því að lofa endurmati á staðarvalinu er orðin mjög örvæntingafullur. Sá flokkurinn verður að finna einhver betri málefni og betri meðreiðarsveina en SBSBS.  

Greinina ritar Þorkell Sigurlaugsson, varaformaður stjórnar Spítalans okkar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. október, 2016.

 


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is