Viðburðaríkt ár hjá samtökunum Spítalinn okkar

Spítalinn okkar – landsamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala

Skýrsla stjórnar starfsárið 2016

Tilgangur og markmið

Tilgangur félagsins er að vinna að nýbyggingu og endurnýjun Landspítala, þannig að húsakostur, tæknibúnaður og aðstaða sjúklinga og starfsfólks spítalans þjóni nútíma þörfum.

Markmið félagsins er að auka stuðning og skilning meðal almennings, stjórnvalda og fjárfesta á nauðsynlegum úrbótum á húsakosti spítalans, að kynna fyrirliggjandi áætlanir um endurnýjun og viðbætur við húsnæði spítalans og að draga fram valkosti í fjármögnun og framkvæmd verkefnisins.

Aðalfundur

Aðalfundur Spítalans okkar var haldinn á Icelandair Hótel Natura 15. mars 2016.  Á fundinum kom m.a. fram að stjórnin lagði í starfi sínu mesta áherslu á kynningarstarfið, ásamt því að kynna Spítalann okkar og fyrir hvað við stöndum. Í kynningum okkar var sjónum beint að því hversu gamalt húsnæði Landspítala er og hentar alls ekki nútíma heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega bentum við á mikið óhagræði sem hlýst af því að reka bráðstarfsemin í gömlu húsnæði og í mörgum húsum.   

Á aðalfundinum voru þessir endurkjörnir í stjórn: Anna Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðingur, formaður,  Gunnlaug Ottesen, stærðfræðingur,  Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt, Kolbeinn Kolbeinsson, byggingarverkfræðingur, Oddný Sturludóttir, píanókennari og háskólanemi, Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur og Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri.

Stjórnarstarfið

Stjórnin hélt 15 fundi á starfsárinu. Á fyrsta fundi eftir aðalfund skipti stjórnin með sér verkum, Þorkell Sigurlaugsson var kjörinn varaformaður, Gunnlaug Ottesen ritari og Kolbeinn Kolbeinsson, gjaldkeri. 

Stjórnin ákvað að kynningarstarfið yrði megin verkefni samtakanna á starfsárinu og áhersla var lögð á að engar tafir yrðu á byggingaverkefninu. Í tilefni af tveggja ára afmæli samtakanna var athygli vakin á greinum sem skrifaðar hafa verið af kunnáttufólki á undanförnum árum um mikilvægi skjótrar uppbyggingar húsnæðis Landspítala og rökin fyrir staðsetningu nýbygginganna við Hringbraut.

Stjórnin hélt átta kynningarfundi með félagsamtökum og fyrirtækjum. Einnig notuðu samtökin og einstaka stjórnarmenn tækifærið til að koma á fundi og kynningar þegar málefni Landspítala voru á dagskrá t.d. fyrir nemendur í Háskóla Íslands. Fundargerðir stjórnar eru birtar á heimasíðu samtakanna.

Í tilefni af kosningum til Alþingis síðastliðið haust fundaði stjórnin með fulltrúum flestra framboða sem buðu fram í kosningunum. Á fundunum var hönnun nýbygginganna kynnt og lögð áhersla á að kynna þær áætlanir sem liggja til grundvallar staðsetningunni. Skipulagsáætlanir fyrir Hringbrautarlóðina liggja fyrir, þ.e. deiliskipulag, svæðis- og aðalskipulag og hafa þær allar verið samþykktar af Skipulagsstofnun. Stjórn er þakklát þeim stjórnmálahreyfingum sem þáðu boð stjórnar um samtal um þetta mikilvæga mál, fundirnir voru upplýsandi og afskaplega gagnlegir. 

Töluverð umræða var í fjölmiðlum á síðastliðnu ári um kosti þess að byggja húsnæði fyrir starfsemi Landspítala á öðrum stað á höfuðborgarsvæðinu. Land við Vífilsstaði var aðallega nefnt í því sambandi en einnig Sævarhöfði og fleiri staðir. Villandi fullyrðingar hafa heyrst í þeirri umræðu sem stjórn Spítalans okkar hefur leitast við að svara, en fleiri hafa blandað sér í þá umræðu, m.a. heilbrigðisráðherra, Nýr Landspítali og forsvarsmenn Landspítala.

Stjórn Spítalans okkar hefur í viðtölum og greinaskrifum farið yfir málavöxtu á ýmsum vettvangi. Í viðtali í Reykjavík - vikublaði sagði Þorkell Sigurlaugsson, varaformaður m.a.: 

„Yrði farin sú leið að reisa nýjan spítala í heilu lagi á öðrum stað myndum við enda með tvo spítala áfram í langan tíma og einn í byggingu. Byggingar við Hringbraut og í Fossvogi í úreltu húsnæði næstu áratugi og svo þriðju spítalabygginguna einhvers staðar annars staðar. Eftir flókið staðarval og skipulagsferli í nokkur ár, síðan þróun, hönnun og útboðsferli í nokkur ár til viðbótar og að lokum byggingarframkvæmdir mjög lengi, líklega næstu 10–15 árin þar á eftir.“

Jón Ólafur Ólafsson arkitekt og stjórnarmaður í Spítalanum okkar skrifaði grein í Morgunblaðið í maí s.l. Þar segir hann m.a.:

„Nýtt staðarval verður ekki unnið með hraði og mun því draga verulega úr framkvæmdahraða við byggingu Landspítala. Staðarvalsgreiningartæki er ekki stöðluð hilluvara sem hægt er að kaupa og beita líkt og hamar og sög. Pólitískan einhug þarf um skipan stýrihóps sem ber ábyrgð á staðarvalsgreiningu og ráða verður sérfræðinga til þess að meta valkosti. Kröfur til tækisins og notkun þess þarf að skilgreina áður en því verður beitt því einhlít aðferð til að greina og meta mismunandi valkosti er einfaldlega ekki til“. Í greininni kemur einnig fram að: „Almannafé verður því sóað ef ráðist verður í nýtt staðarval þvert á væntingar stjórnenda spítalans, þvert á samþykkt allra sveitarélaga höfuðborgarsvæðisins og í andstöðu við yfirlýstan vilja Alþingis og ríkisstjórnar“.

Spítalinn okkar hefur frá upphafi lagt áherslu á að ekkert megi verða til að tefja byggingarframkvæmdir við Hringbraut. Helstu rökin fyrir því er gamalt húsnæði Landspítala sem svarar ekki kröfum um nútíma heilbrigðisþjónustu. Einnig er starfsemi Landspítala dreifð um höfuðborgarsvæðið sem hefur í för með sér umtalsverð óþægindi fyrir sjúklinga og starfsfólk og aukinn kostnað fyrir samfélagið. 

Samtökin héldu tvö málþing á starfsárinu. Annað í tengslum við aðalfund og bar það yfirskriftina „Sameinaðir kraftar í Vatnsmýrinni“. Þrír fyrirlesarar voru með erindi á málþinginu: Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Klara Guðmundsdóttir, læknanemi og Sara Þórðardóttir Oskarsson, listamaður. Í máli þeirra allra kom fram mikilvægi staðsetningar Hringbrautarverkefnisins, að tengsl þekkingarstofnanna í Vatnsmýrinni verði ekki rofin og að ekkert megi verða til að tefja framkvæmdir á svæðinu. 

Hitt málþingið var haldið á haustmánuðum og þema þess var „Spítalinn rís“. Erindi fluttu Gunnar Svarvarsson, framkvæmdastjóri NLSH, Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. Gunnar sagði að mikil hugur væri hjá starfsmönnun Nýs Landspítala, að hönn­un nýs meðferðar­kjarna gangi vel og að senn verði sjúkra­hót­elið tekið í notk­un.  Guðrún rakti mikilvægi samstarfs háskóla og spítala. Hún sagði að hvor stofnun gæti ekki án hinnar verið og að alls ekki mætti færa spítalann fjarri háskólasvæðinu. Páll lagði áherslu á að erfitt væri að tryggja öryggi sjúklinga í núverandi húsnæði og mikil breyting yrði til batnaðar þegar meðferðarkjarninn verði tekinn í notkun. 

Góður rómur var gerður að þessum viðburðum.

Magnús Heimisson almannatengill hefur verið samtökunum til ráðgjafar við allt kynningarstarfið. Hann hefur miðlað okkur af sinni miklu þekkingu á því sviði og veitt okkur ómetanlega aðstoð. Stjórnin er honum sérstaklega þakklát fyrir þá aðstoð.

Byggingaverkefnið

Mikilvægt skref var stigið í Hringbrautarverkefninu þegar Alþingi samþykkti á síðasta þingi tillögu til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun til 5 ára. Þar ber helst að nefna fjármögnun fyrstu áfanga í byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss sem mun marka þáttaskil í uppbyggingu á góðri heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn. Þar segir einnig: „Frekari uppbygging er fyrirhuguð, sbr. ályktun Alþingis frá janúar 2014 um endurbyggingu LSH við Hringbraut“. 

Er þá ekki allt tryggt varðandi byggingaframkvæmdina? Kunna margir að spyrja. Mikilvægt er að muna að fjárlög hvers árs eru lögin sem gilda um ríkisfjármálin. Það verður því mikilvægt verkefni að fylgja málinu eftir. Ýmis ljón eiga eftir að verða á veginum en áríðandi er að láta þenslu á byggingamarkaði, kreppu eða óvæntar uppákomur ekki slá okkur út af laginu.

Byggingaframkvæmdir við sjúkrahótelið eru langt komnar og verður það tekið í notkun síðar á þessu ári. Fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans, sem er stærsta og flóknasta byggingin, er í fullum gangi en samningur um fullnaðarhönnun þess var undirritaður við hönnunarteymið Corpus3 haustið 2015. Stefnt er að því að framkvæmdir við meðferðarkjarnann verði boðnar út seint á næsta ári og að hann verði tekin í notkun árið 2023.

Nú stefnir í að fullnaðarhönnun rannsóknarhússins hefjist, en forval í þá hönnun var auglýst seint á síðasta ári. Eitt af því sem verður að tryggja er að bygging rannsóknarhússins fari í gang á svipuðum tíma og meðferðarkjarninn, enda tengjast þessar byggingar, ásamt bílastæðahúsi, órjúfanlegum böndum. Um nýtt rannsóknarhús má lesa á heimasíðu samtakanna, en Jóhannes M. Gunnarsson, félagi í Spítalanum okkar tók saman mjög góða greinargerð um rannsóknarhúsið.

Lokaorð

Spítalinn okkar hefur notið stuðnings ýmissa aðila við kynningarstarfið. Þekking hf. hýsir tölvupóst samtakanna okkur að kostnaðarlausu og Stefna hugbúnaðarhús hýsir heimasíðu samtakanna okkur að kostnaðarlausu. Einnig hafa margir einstaklingar lagt samtökunum lið með ýmsum hætti, ekki síst í tengslum við skipulagningu á málþingum samtakanna. Þátttaka fagfólks í slíkum málþingum er samtökunum afar mikilvæg og fyrir það viljum við þakka af heilum hug.  

Spítalinn okkar fagnar þeim jákvæðu skrefum sem tekin hafa verið á liðnum árum og leggur ríka áherslu á að ekkert verði til að tefja uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala, enda þörfin brýn fyrir bættan húsa- og tækjakost. Hröð uppbygging Landspítala er hagsmunamál allra Íslendinga, enda höfum við dregist hratt aftur úr öðrum þjóðum á undanförnum árum.  

Stjórnarfólki í Spítalanum okkar er þakkað fyrir sérstaklega ánægjulegt og óeigingjarnt starf í þágu samtakanna. Félagsmönnum samtakanna eru einnig færðar þakkir fyrir stuðninginn við þetta mikilvæga verkefni. Áframhaldandi stuðningur ykkar er mikilvægur.

Anna Stefánsdóttir, formaður stjórnar. 

 

 

 


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is