Aðalfundur Spítalans okkar 2020

Aðalfundur Spítalans okkar 2020

Fundurinn fór fram þann 9. júní á Nauthóli, Nauthólsvík. Fundurinn hófst kl. 16.00 og hátt í 40 manns sóttu fundinn.

Dagskrá

1) Hefðbundin aðalfundarstörf
2) Skyggnst inn í nýjan meðferðarkjarna Landspítala – Ögmundur Skarphéðinsson, arkitekt
3) Hlutverk meðferðarkjarna á tímum farsótta – Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdóma Landspítala
4) Tækninýjungar og framtíðarsýn í heilbrigðismálum – María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands flutti lokaorð.

Setning og skýrsla stjórnar
Anna Stefánsdóttir, formaður stjórnar Spítalans okkar setti aðalfundinn og bað Ástu Möller, hjúkrunarfræðing að taka við stjórnartaumunum. Ásta Möller fór yfir dagskrá fundarins og bauð Önnu Stefánsdóttur að flytja skýrslu stjórnar. Anna hóf mál sitt á því að rifja upp höfuðmarkmið samtakanna frá stofnun þeirra sem eru:

  • Að efla skilning og stuðning meðal almennings og stjórnvalda á nauðsynlegum úrbótum á húsakosti spítalans
  • Að varpa ljósi á brýna þörf uppbyggingar á spítalaþjónustu vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar og breytinga í aldurssamsetningu þjóðarinnar – og nauðsynlegum framförum í þjónustu og meðferð sjúklinga.
  • Að kynna fyrirliggjandi áætlanir um endurnýjun og viðbætur við húsnæði spítalans

Anna reifaði helstu tíðindi úr starfi samtakanna á árinu 2019.

  • Glæsilegt afmælismálþing var haldið árið 2019 en samtökin náðu fimm ára aldri á árinu. Afmælismálþingið var haldið þann 12. nóvember og var mjög vel sótt.
  • Þorkell Sigurlaugsson, varaformaður samtakanna setti afmælismálþingið og Anna Stefánsdóttir, formaður flutti erindi sem hún kallaði Þörfin kallar hærra með hverju árinu. Er það tilvitnun í Ingibjörgu H. Bjarnason úr ræðu hennar á Alþingi árið 1923, þar sem hún eggjaði þingheim til að draga ekki lengur að byggja spítala á Íslandi.
  • Alma Möller landlæknir flutti erindið: Nýtt þjóðarsjúkrahús – framþróun heilbrigðisþjónustu.
  • Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala flutti erindið: Vísindi og menntun til framtíðar.
  • Charlotta Tönsgård, framkvæmdastjóri og stonfandi heilbrigðistæknisprotans KIND APP flutti erindið Learnings and warnings from the boom of „digital health“ in Sweden.
  • Lokaorð flutti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Blásarakvintett Skólahljómsveitar Grafarvogs lék tónlist fyrir gesti, sem einnig þáðu léttar veitingar að málþingi loknu.

Anna reifaði helstu áfanga byggingarverkefnisins á árinu 2019, en þeir stærstu eru framkvæmdir við gatnagerð og jarðvinnu vegna byggingar meðferðarkjarna, bílakjallara og gatna á lóðinni. Uppsteypa meðferðarkjarnans hefst fljótlega. Nýr Landspítali (NLSH) undirbýr nú framgang rannsóknarhúss en jarðvinna þar gæti hafist í byrjun árs 2021.

Ársreikningur samtakanna árið 2019
Gunnlaug Ottesen, gjaldkeri stjórnar, fer yfir ársreikning samtakanna. Rekstrarniðurstaða ársins var neikvæð um 291.291 krónur en efnahagsreikningur sýnir fram á að eigið fé sé rúmar 1.8 milljónir króna. Engar skuldir hvíla á samtökunum. Ársreikningur samtakanna er samþykktur af aðalfundargestum.

Kjör stjórnarfólks
Sitjandi stjórnarfólk býður sig fram aftur, utan Kristjáns Erlendssonar. Ásgeir Þór Árnason býður sig fram í stjórn. Formaður er kosinn sérstaklega og í framboði er Anna Stefánsdóttir. Hún er einróma kjörin formaður samtakanna af aðalfundargestum. Aðrir í framboði hljóta áframhaldandi brautargengi.

Stjórn er þá þannig skipuð starfsárið 2020-2021.

Anna Stefánsdóttir, formaður
Þorkell Sigurlaugsson, varaformaður
Oddný Sturludóttir, ritari
Gunnlaug Ottesen, gjaldkeri
Guðrún Ágústsdóttir, meðstjórnandi
Jón Ólafur Ólafsson, meðstjórnandi
Ásgeir Þór Árnason, meðstjórnandi

Önnur mál  
Ögmundur Skarphéðinsson, arkitekt flutti erindi sem hann nefndi Skyggnst inn í nýjan meðferðarkjarna Lansdspítala. Ögmundur sýndi þrívíddarmyndir af völdum einingum meðferðarkjarnans og fjallaði um það hvernig hönnun sjúkrahúsbygginga, birta og gróður geti stuðlað að heilsu manna.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdóma Landspítala flutti erindi um hlutverk meðferðarkjarna á tímum farsótta. Hann fór yfir hönnun meðferðarkjarnans og hvernig sveigjanleiki hennar gerir heilbrigðisstéttum kleift að takast á við flóknar farsóttir. Már sagði að viðbrögð við farsótt byggi á eðli farsóttarinnar, samstilltum hópi fagfólks, vel hönnuðu og sveigjanlegu húsnæði og þekkingu á því, hæfileikaríku starfsfólki, rannsóknarstofum með fullnægjandi greiningargetu, nægjanlegum birgðum og upplýsingatækni.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga flutti lokaorð og fjallaði um tækninýjungar og framtíðarsýn í heilbrigðismálum. Hún lagði áherslu á að bygging nýs Landspítala snúist ekki um umferðarteppur, burðarþol og skipulagsmál. Bygging nýs Landspítala snúist um fólk og samstarf fagstétta, innan og utan spítalans. María hvatti til þess að öflug fjarþjónusta verði byggð upp í heilbrigðiskerfinu, með þverfaglegum teymum og öflugri heilsugæslu um allt land.

Góður rómur var gerður að máli og myndum Ögmundar, Más og Maríu.
Ásta Möller sleit aðalfundi samtakanna Spítalinn okkar kl. 17.30.

Fundargerð ritaði Oddný Sturludóttir.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is