Hröð uppbygging Landspítala er hagsmunamál allra Íslendinga

Spítalinn okkar hefur frá upphafi lagt áherslu á að ekkert megi verða til að tefja byggingarframkvæmdirnar og hönnunarferli nýs Landspítala við Hringbraut. Helstu rökin fyrir því er gamalt og úrelt húsnæði Landspítala sem svarar ekki kröfum um nútíma heilbrigðisþjónustu. Einnig er starfsemi Landspítala dreifð um höfuðborgarsvæðið sem hefur í för með sér umtalsverð óþægindi fyrir sjúklinga og starfsfólk - og aukinn kostnað fyrir samfélagið. 

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er uppbygging Landspítala við Hringbraut gerð að forgangsmáli og því fagna samtökin. Framundan er að ljúka hönnun meðferðarkjarnans, hins eiginlega sjúkrahúss nýs Landspítala og mikilvægasta hluta hans. Í meðferðarkjarnanum verður öll bráðastarfsemi spítalans, ásamt 210 legurýmum. Sjúkrarúmum á legudeildum mun fjölga þegar starfsemin flytur úr Fossvogi í nýtt sjúkrahús á Hringbraut. Einnig fjölgar rúmum á gjörgæsludeild og skammlegudeild sem tengd er bráðamóttöku.

Talsverð umræða var á árinu í fjölmiðlum um nauðsyn þess að fara enn á ný í staðarval fyrir nýbyggingar Landspítala. Stjórnin hefur tekið saman gögn um þau mörgu matsferli og röksemdafærslu að baki staðarvali við Hringbraut, sem þegar liggja fyrir. Þau má nálgast á heimasíðu samtakanna. Málið hefur nokkrum sinnum verið skoðað á undanförnum árum og niðurstaðan ávallt verið á þann veg að best og hagkvæmast sé að halda áfram með byggingu Landspítala við Hringbraut, þótt ekki hafi farið fram ítarlegt mat á því hvaða staður kynni að vera góður ef byggt færi nýr Landspítali í heild sinni á nýjum stað. Þá hefur Alþingi ályktað mótatkvæðalaust í þrígang á undanförnum árum með lagasetningu og samþykkt þingsályktunar að framtíðaruppbygging Landspítala skuli vera við Hringbraut í Reykjavík.

Ársskýrsluna okkar má lesa hér.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is