Tvö ár frá glæsilegum stofnfundi

Um síðastliðna helgi voru tvö ár liðin frá glæsilegum stofnfundi Spítalans okkar. Á tímamótum sem þessum er gott að fara yfir farinn veg og skoða hvað hefur áunnist frá stofnun samtakanna.   

Öflugt kynningarstarf hefur verið ríkur þáttur í starfi samtakanna frá upphafi. Fyrirliggjandi áætlanir um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut hafa skipað stóran sess í kynningum ásamt helstu rökum fyrir því hvers vegna ekkert má tefja undirbúning og framkvæmdir við nýbyggingar Landspítala. Samtökin hafa staðið fyrir tveimur málþingum sem bæði voru fjölmenn og tókust mjög vel, enda fengum við til liðs við okkur einstaklinga með mikla reynslu og þekkingu á sviði heilbrigðisþjónustu og skipulagsmála. 

Stjórn Spítalans okkar fylgist vel með framkvæmdum á vegum Nýs Landspítala ohf. (NLSH). Forsvarsmenn félagsins hafa fundað með stjórn Spítalans okkar, kynnt starfið og áætlanir til næstu ára. Framkvæmdir hófust á lóð Landspítala við Hringbraut þegar Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, tók skóflustungu að sjúkrahótelinu að viðstöddum fjölda manns í nóvember á síðasta ári. Meðal þeirra sem fögnuðu skóflustungunni voru sjö fyrrverandi heilbrigðisráðherrar og nemendur á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Framkvæmdir við sjúkrahótelið standa nú yfir og eru á áætlun. Sjúkrahótelið verður tekið í notkun á næsta ári og verður mikil búbót fyrir starfsemi Landspítala. 

Í september síðastliðnum var undirritaður samningur við hönnunarteymið Corpus um fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna Landspítala við Hringbraut. Meðferðarkjarninn er stærsta og flóknasta byggingin af nýbyggingum Landspítala. Áætlað er að hönnun meðferðarkjarna ljúki árið 2018 og að byggingaframkvæmdir hefjist á því ári. Mikið samstarf er milli starfsmanna NLSH, Landspítala og hönnuða nýja spítalans. 

Spítalinn okkar fagnar þeim jákvæðu skrefum sem tekin hafa verið á liðnum árum og leggur ríka áherslu á að ekkert verði til að tefja uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala, enda þörfin brýn fyrir bættan húsa- og tækjakost. Hröð uppbygging Landspítala er hagsmunamál allra Íslendinga, enda höfum við dregist aftur úr öðrum þjóðum á undanförnum árum.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is