Unga fólkið styður byggingu nýs Landspítala

Nýlega gerði heilbrigðisvísindasvið HÍ könnun meðal nemenda í  læknis-, hjúkrunar-, lyfja-, lífeinda- og geislafræði, auk sjúkraþjálfunar. 254 nemendur svöruðu ýmsum spurningum um viðhorf sitt til heilbrigðismála á Íslandi.

Því miður eru viðhorf unga fólksins neikvæð í mörgum mikilvægu þáttum. Þau ríma vel við þá umræðu og áhyggjur sem heilbrigðisstarfsfólk hefur lýst á síðustu misserum. Sem dæmi segjast einungis 17% líta á Landspítalann sem sinn framtíðar vinnustað og 48% þeirra hafa neikvætt viðhorf til framtíðar íslensks heilbrigðiskerfis. Þetta er verulegt áhyggjuefni og ekki þarf að fjölyrða um afleiðingar þess að við missum bróðurpart okkar unga fólks sem menntað hefur sig í heilbrigðisvísindum, úr landi.

 En jákvæð tíðindi er að finna í könnuninni sem eru byr í seglin fyrir samtökin Spítalinn okkar. Í yfirgnæfandi meirihluta styður ungt fólk í námi í heilbrigðisvísindum byggingu nýs Landspítala, eða um 82%. Það er ljóst að ungt fólk lítur á það sem lykilþátt í að treysta grunn íslenskrar heilbrigðisþjónustu.

 Vonandi verður þess ekki langt að bíða að uppbygging hefjist. Ungt fólk verður að sjá framtíð sína fyrir sér sem fagfólk í heilbrigðisvísindum á Íslandi, öðruvísi getum við ekki tryggt komandi kynslóðum góða heilbrigðisþjónustu.

 


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is