Fréttabréf stjórnar Spítalans okkar

Spítalinn okkar - Fréttir frá stjórn

Nú styttist í aðalfund Spítalans okkar sem verður haldinn þann 15. mars næstkomandi á Hótel Natura (Hótel Loftleiðum). Fundarboð var sent  út til allra félaga þann 1. mars síðastliðinn. Að loknum aðalfundarstörfum verður stutt en fróðlegt málþing, m.a. um Hringbrautarverkefnið og sagt frá þátttöku starfsfólks Landspítala í hönnunarferlinu.

Hringbrautarverkefnið, uppbygging nýs Landspítala við Hringbraut, er á fullri ferð. Nú hillir undir að fyrsta byggingin, sjúkrahótelið verði tekið í notkun. Framkvæmdaaðilar hafa hafist handa við að klæða húsið að utan og stefnt er að því að ljúka því verki í maí, samhliða og inannhúsfrágangi lýkur. Með tilkomu sjúkrahótelsins er stórt skref í aukinni þjónustu Landspítala stigið. Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi og er hótelið sérstaklega mikilvægt fólki af landsbyggðinni sem þarf á þjónustu spítalans að halda í lengri eða skemmri tíma. Þessa dagana vinnur Landspítali að yfirferð á rekstrarformi þess og regluverki, en mikilvægast er að skjólinu sem skapast fyrir sjúklinga með tilkomu hótelsins á lóð Landspítalans verði vel tekið. Reynslan frá Norðurlöndunum er góð af tilkomu sjúkrahótela inn á lóð spítalanna.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er uppbygging Landspítala við Hringbraut gert að forgangsmáli. Fyrri ríkisstjórnir hafa einnig staðið myndarlega við bakið á uppbyggingunni og frávikalaust hafa allar ríkisstjórnir frá aldamótum, er fyrst var farið að ræða um uppbyggingu á Hringbraut, stutt áformin með einum eða öðrum hætti. Framundan er að ljúka hönnun meðferðarkjarnans, sem oft er kallað hjartað í starfsemi nýs Landspítala. Í meðferðarkjarnanum verður öll bráðastarfsemi spítalans, ásamt 210 legurýmum. Sjúkrarúmum á legudeildum mun fjölga þegar starfsemin flytur úr Fossvogi í nýtt sjúkrahús á Hringbraut. Einnig fjölgar rúmum á gjörgæsludeild og skammlegudeild sem tengd er bráðamóttöku.

Hönnun lóða og gatna á Hringbrautarsvæðinu umhverfis spítalann er í fullum gangi og fyrsti verkhlutinn verður boðin út á vormánuðum, ef heimildir fást. Mikilvægt er að vanda hér til verka til að tryggja gott aðgengi að meðferðarkjarnanum og til að tryggja gott aðgengi að eldri byggingum á meðan framkvæmdum stendur.

Bygging rannsóknarhúss er einnig fyrirhuguð á næstu árum. Útboð á fullnaðarhönnun stendur fyrir dyrum. Rannsóknarhúsið verður um 15.000 fermetra bygging og mun hýsa rannsóknarstofur spítalans. Það verður mjög til bóta að sameina alla rannsóknarstarfsemi Landspítala í eitt rannsóknarhús, í dag dreifist sú starfsemi á fjölmarga staði víðs vegar um borgina. Blóðbankinn verður einnig til húsa í rannsóknarhúsinu.

Talsverð umræða hefur verið síðustu vikur um nauðsyn þess að fara enn á ný í staðarval fyrir nýbyggingar Landspítala. Stjórnin hefur tekið saman gögn um röksemdarfærsluna að baki staðarvali við Hringbraut, þau má kynna sér á heimasíðu okkar www.spitalinnokkar.is. Málið hefur verið oft og ítarlega skoðað á undanförnum árum og niðurstöður eru ávallt á þann veg að best og hagkvæmast sé að byggja nýtt sjúkrahús við Hringbraut. Alþingi hefur í þrígang á undanförnum árum ályktað samhljóða með lagasetningu eða samþykkt þingsályktunar að framtíðaruppbygging Landspítala skuli vera við Hringbraut.  Staðarval fyrir jafn viðamikla byggingaframkvæmd og Hringbrautarverkefið eða nýtt húsnæði fyrir starfsemi Landspítala er, var ekki hrist fram úr erminni á nokkrum mánuðum. Okkur reiknast til að nýtt staðarval gæti tafið uppbyggingu Landspítala um allt að 10–15 ár. Slík töf myndi hafa umtalsverð áhrif á framþróun heilbrigðisþjónustu í landinu, en núverandi húsnæði Landspítala er um margt ófullnægjandi fyrir nútíma sjúkrahúsþjónustu.

Við sem sitjum í stjórn Spítalans okkar hvetjum þig til að fylgjast vel með fréttum af Hringbrautarverkefninu á næstu mánuðum og senda okkur línu á annast@spitalinnokkar.is ef þú lumar á ábendingum, vangaveltum eða vilt beina spurningum til stjórnar.

Stjórnarfólk þakkar fyrir stuðning þinn við samtökin og vonast til að sjá þig á aðalfundi!

Anna, Gunnlaug, Jón Ólafur, Kolbeinn, Oddný, Sigríður og Þorkell


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is